Leita í fréttum mbl.is

Frábæru unglingalandsmóti lokið

Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið var á Höfn um helgina tókst í alla staði frábærlega upp. Öll skipulagning var til fyrirmyndar sem og aðstaðan sem boðið var upp á. Rétt tæplega 1000 keppendur af öllu landinu voru samankomnir á Höfn þessa helgi til þess að keppa í 10 mismunandi íþróttagreinum. Samtals voru hér þegar best lét á milli 7000 - 8000 gestir um helgina.

Allir keppendur voru til fyrirmyndar og stóðu sig vel á mótinu sjálfu og kannski ekki síst þess vegna sem mótið heppnaðist svona vel. Allar tímasetningar stóðust og allt skipulag gekk mjög vel upp um helgina.

Unglingalandsmótsnefndin sem sá um alla skipulagningu mótsins á hrós skilið fyrir það hvernig staðið var að öllu á mótinu. Hornfirðingar brugðust líka frábærlega við þegar leitað var eftir sjálfboðaliðum til þess að starfa á mótinu. Allir voru tilbúnir til þess að leggja sitt af mörkum svo mótið heppnaðist sem best.

Sem betur fer þá rættist ekki sú veðurspá sem búið var að hóta okkur alla vikuna fyrir landsmótið. Einungis var smávægilegur úði á meðan setning mótsins fór fram en hann var svo lítill að varla tekur því að nefna hann. Það viðraði sem sagt ágætlega alla helgina þó stundum hafi verið smávægilegur gustur á keppnissvæðinu.

Það eina sem skyggir á þetta unglingalandsmót að mínu mati er hversu lítinn áhuga fjölmiðlar virtust hafa á því. Sérstaklega á þetta við um fréttastofur sjónvarpsstöðvanna. Stöð tvö fjallaði til að mynda ekkert um unglingalandsmótið. Það vekur óneitanlega furðu þar sem Höfn kom næst á eftir Vestmannaeyjum í mannfjölda um verslunarmannahelgina. Eina sem upp í hugann kemur er að það þyki einfaldlega ekki fréttnæmt þegar 1000 unglingar eru samankomnir með fjölskyldum sínum til þess að skemmta sér án áfengis og vímuefna og allt fer fram eins og best verður á kosið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband