Leita í fréttum mbl.is

Velkomin á 10. Unglingalandsmót UMFÍ á Hornafirði

Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 29. júli. Hún fjallar um væntanlegt unlingalandsmót UMFÍ sem fram fer um verslunarmannahelgina:

Það dylst engum sem leið á um Sveitarfélagið Hornafjörð að þar stendur mikið til um þessar mundir. Allt er á fullu í undirbúningi fyrir Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer um verslunarmannahelgina. Nú er nýlokið framkvæmdum við Sindravelli þar sem byggð var upp glæsileg aðstaða fyrir frjálsar íþróttir og nýtt gras lagt á knattspyrnuvöllinn. Framkvæmdir sem þessar kosta auðvitað umtalsverða fjármuni en framkvæmdirnar eru samstarfsverkefni sveitarfélagsins, ríkissjóðs, UMFÍ og Ungmennasambandsins Úlfljóts.

Á Unglingalandsmótinu sumarið 2005 sem haldið var í Vík í Mýrdal var það opinberað að stjórn UMFÍ hefði ákveðið að Ungmennasambandið Úlfljótur skyldi halda mótið sumarið 2007 á Hornafirði. Mikil gleði og eftirvænting greip þá þegar um sig í herbúðum Hornfirðinga og fólk fór strax að undirbúa mótið. Frá upphafi var ljóst að mikið verk var fyrir höndum í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Sveitarfélagið tók höndum saman við íþróttahreyfinguna á staðnum og fólk var staðráðið í því að byggja hér upp glæsilega aðstöðu. Það hefur nú gengið eftir.

Unglingalandsmót bæta aðstöðu íþróttafólks á landsbyggðinni

Allur undirbúningur Unglingalandsmótsins hefur verið gríðarleg vítamínsprauta fyrir allt íþróttalíf Hornfirðinga. Iðkendur í frjálsum íþróttum sjá nú fram á skemmtilega æfinga - og keppnisdaga við frábærar aðstæður og knattspyrnufólk Sindra hlakkar til að geta spilað á glænýjum grasvellinum næsta sumar. Einnig var ráðist í það verkefni með Akstursíþróttafélag Austur - Skaftafellssýslu að byggja upp motocrossbraut í nálægð við þéttbýlið á Höfn svo hægt yrði að keppa í motocrossi á landsmótinu. Aldrei hefur áður verið keppt í þeirri grein á Unglingalandsmóti. En þetta er ekki það eina sem umstangið í kringum mótið hefur getið af sér.

Þegar forsvarsmenn Ungmennasambandsins Úlfljóts leituðu eftir fjármagni einkaaðila á staðnum í tengslum við uppbyggingu íþróttamannvirkjanna kom í ljós vilji útgerðarfyrirtækisins Skinneyjar - Þinganess hf. til þess að koma myndarlega að uppbyggingunni. Áhugi fyrirtækisins var ekki síst tilkominn vegna þess að fyrirtækið fagnar 60 ára afmæli sínu um þessar mundir. Eftir umhugsun og umræður var það niðurstaða stjórnar Skinneyjar - Þinganess hf. að leggja a.m.k. 60 milljónir kr. í uppbyggingu knattspyrnuhúss í líkingu við Risann sem Fimleikafélag Hafnarfjarðar reisti í Kaplakrika. Þetta verkefni er nú komið á fullt skrið hjá sveitarfélaginu og vonumst við til þess að framkvæmdir við knattspyrnuhúsið hefjist í vetur.

Fljótlega eftir að ljóst varð að Unglingalandsmótið 2007 yrði haldið á Hornafirði komu fram óskir hjá íbúum sveitarfélagsins um nýja sundlaug. Sú gamla er lítil og þjónusturými af skornum skammti en laugin hefur þjónað sínu hlutverki mjög vel engu að síður. Bæjarstjórn Hornafjarðar tók ákvörðun um það fljótlega eftir að óskir um nýja sundlaug komu fram að ráðist skyldi í byggingu nýrrar sundlaugar. Ákveðið var að byggja 25 metra laug með glæsilegri þjónustubyggingu. Hér er um gríðarlega stórt og metnaðarfullt verkefni að ræða fyrir sveitarfélag eins og Hornafjörð. Skemmst er frá því að segja að ekki tókst að ljúka byggingu sundlaugarinnar fyrir Unglingalandsmótið af tæknilegum ástæðum. Bygging sundlaugarinnar er í fullum gangi þessa dagana og vonandi geta gestir og heimamenn tekið sundsprett í nýrri laug áður en langt um líður.  

Af þessari upptalningu að dæma er ljóst að sú ákvörðun að halda Unglingalandsmót UMFÍ 2007 á Hornafirði hefur haft mjög jákvæð áhrif á allt íþróttalíf í sveitarfélaginu. Allri uppbyggingu íþróttamannvirkja hefur verið hraðað hjá sveitarfélaginu og einkaaðilar hafa komið að uppbyggingunni með myndarlegum hætti. Þetta hefur allt stuðlað að því að brátt mun hornfirskt íþróttafólk búa við frábærar aðstæður til þess að iðka sína íþrótt. Engum blöðum er um það að fletta að góð aðstaða hvetur fólk til dáða og mun auka iðkun hvers kyns íþrótta í samfélaginu til muna. 

Mikið sjálfboðaliðastarf

Eins og gefur að skilja er það langt frá því að vera einfalt mál að taka á móti 10.000 gestum á einni helgi. Það krefst mikils skipulags og mikillar vinnu. Það er greinilegt að Hornfirðingar eru mjög meðvitaðir um það og nú þegar hafa hátt í hundrað manns boðið sig fram til þess að starfa sem sjálfboðaliðar á mótinu. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að heimamenn munu gera sitt ýtrasta til þess að hlutirnir gangi vel fyrir sig um verslunarmannhelgina svo dvöl gesta okkar verði ánægjuleg. Á göngu um bæinn finnur maður vel spennuna fyrir mótinu magnast á meðal bæjarbúa og maður finnur vel að allir eru staðráðnir og samstíga í því að láta helgina verða eftirminnilega. Við slíkar aðstæður er gaman að starfa.

Undirritaður vill því nota þetta tækifæri til þess að bjóða allt það fólk sem hefur áhuga á því að skemmta sér með okkur á þessari áfengis - og vímulausu hátíð velkomið á Unglingalandsmót UMFÍ á Hornafirði um verslunarmannhelgina.

 

Höfundur er forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband