14.7.2007 | 22:36
Enn af mótvægisaðgerðum
Í framhaldi af umræðum um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kvótaskerðingar í næsta fiskveiðiári þá birtist þessi grein í Morgunblaðinu laugardaginn 14. júlí 2007.
Ekkert kemur í staðinn fyrir 60 þúsund tonn af þorski
Undanfarin ár hefur ferðaþjónusta verið í örum vexti á suðausturhorni landsins. Vatnajökull er án efa stærsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn á þessum slóðum. Enda er gjarnan talað um það á suðausturhorni landsins sé maður staddur í ríki Vatnajökuls. Langt er síðan Hornfirðingar áttuðu sig á aðdráttarafli jökulsins í augum ferðamanna. Sveitarfélagið og ýmsir aðilar tengdir ferðaþjónustu í sveitarfélaginu hafa kerfisbundið markaðsett Hornafjörð með skírskotun til Vatnajökuls. Allir vita að snjósleðaferð á Skálafellsjökul í góðu veðri er ferð sem enginn gleymir. Annað gott dæmi um markaðssetningu og metnað Hornfirðinga tengdan Vatnajökli er Jöklasýningin sem staðsett er á Höfn. Það er verkefni sem hefur heppnast ákaflega vel og við sjáum stöðuga aukningu á heimsóknum ferðamanna þangað yfir sumartímann. Einnig sjáum við stöðuga aukningu á jaðartímum ferðaþjónustunnar sem beinlínis er tengd jöklinum og aðdráttarafli hans. Af þessum sökum þarf engan að undra þótt Hornfirðingar hafi miklar væntingar til stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs, stærsta þjóðgarðs í Evrópu.
Mikilvægt að hraða uppbyggingu stærsta þjóðgarðs Evrópu
Hinu má þó ekki gleyma að undirstöðuatvinnuvegur Hornfirðinga er sjávarútvegur og þess vegna er ljóst að sá niðurskurður á þorskkvóta sem sjávarútvegsráðherra hefur nú ákveðið mun hafa mjög neikvæð áhrif á atvinnulíf Hornfirðinga. Þess vegna er mjög brýnt að bregðast hratt og ákveðið við niðurskurðinum með markvissum aðgerðum. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og það að hraða allri uppbyggingu í tengslum þjóðgarðinn kemur að mati okkar sem sitjum í bæjarstjórn sterklega til greina sem mótvægisaðgerð. Það eitt og sér dugir þó ekki til. Hornfirðingar hafa lengi verið þeirrar skoðunar að öll yfirstjórn þjóðgarðsins eigi að vera staðsett í sveitarfélaginu og þá í Nýheimum, fræðslu - og frumkvöðlasetri Hornfirðinga. Það er einnig mat undirritaðs að starfsemi Umhverfisstofnunar falli vel inn í hugmyndir manna um þjóðgarðinn. Þess vegna tel ég að ríkisvaldið eigi að íhuga það gaumgæfilega staðsetja hluta starfsemi Umhverfisstofnunar á Hornafirði til þess að vega upp á móti þeim neikvæðu samfélagslegu áhrifum sem samdrátturinn í þorskveiðum mun hafa í för með sér. Slík ráðstöfun myndi hafa gríðarlega mikla þýðingu fyrir væntanlegan þjóðgarð og ríkisstjórnin myndi með slíkri ráðstöfun sýna metnað sinn í verki gagnvart Vatnajökulsþjóðgarði.
Aukin verðmætasköpun í sjávarútvegi
Mikið starf hefur verið unnið á undanförnum árum á vegum Matís í Nýheimum þar sem m.a. er stefnt að því að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi. Flestir kannast sennilega við humarhótelið þar sem lifandi humar er geymdur í tiltekinn tíma eða þar til aðstæður á markaði eru hagstæðar. Þá er hann seldur ferskur oftast til landa við Miðjarðarhafið sem lúxusvara. Þetta verkefni hefur vakið gríðarlega athygli og er þegar farið að skila árangri. Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld átti sig á mikilvægi þess að styðja myndarlega við bakið á þróunar - og nýsköpunarstarfi eins og þessu sem Matís á Hornafirði hefur unnið að. Þetta á ekki hvað síst við um þróunarvinnu þar sem markmiðið er að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi. Til þess að það geti gengið eftir er mikilvægt að stjórnvöld fjölgi störfum í þessum geira á landsbyggðinni bæði sem mótvægisaðgerð vegna skerðingar þorskkvótans en ekki síður til þess að efla rannsóknar - og þróunarstarf á landsbyggðinni. Það styrkir stoðir atvinnulífsins á landsbyggðinni og eykur fjölbreytnina í atvinnulífinu. Þótt það sé rétt hjá sjávarútvegsráðherra að ekkert komi í staðinn fyrir 60 þúsund tonn af þorski er ljóst að aðgerðir eins og þær sem hér hafa verið reifaðar geta orðið til þess að styrkja innviði og grunnstoðir samfélags útgerðarbæja eins og Hornafjarðar til framtíðar.
Árni Rúnar Þorvaldsson
Höfundur er forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar og oddviti Samfylkingarinnar
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:44 | Facebook
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
Athugasemdir
Ágætishugmyndir þetta. Ég vona hinsvegar að menn átti sig á því að það þarf að stínga rækilega út í ferðaþjónustubransanum. Þetta eru láglaunastörf sem í mörgum tilvikum eru unnin af ungu námsfólki í sumarfríum. Engir samningar eru virtir og launin eru lág eins og áður sagði. Fólk vinnur myrkrana á milli og mikið af unga fólkinu þekkir ekki réttindi sín nægilega vel. Það þarf að taka til í þessari ungu atvinnugrein áður en ég get leyft mér að hampa henni.
Aðalheiður Ámundadóttir, 14.7.2007 kl. 23:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.