Leita í fréttum mbl.is

Niðurskurður kvóta og mótvægisaðgerðir

Engan þarf að undra að fyrirhugaður niðurskurður á þorskkvóta fyrir næsta fiskveiðiár leggst afar illa í marga. Að sjálfsögðu mun þessi ráðstöfun hafa gríðarlega slæm áhrif byggðalög sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á sjávarútvegi. Sérstaklega kemur þetta illa við staði þar sem fjölbreytnin í atvinnulífinu er ekki mikil og samdráttur í fiskveiðum og fiskvinnslu hefur þegar átt sér stað. Störf munu tapast í greininni bæði á sjó og í landi og auðvitað er það gríðarlegt áfall fyrir þá sem fyrir því verða.

Ég get þó ekki leynt þeirri skoðun minni að þessi ákvörðun hafi verið rétt hjá sjávarútvegsráðherra þó sársaukafull sé. Að sjálfsögðu eru margar aðrar skoðanir uppi um stærð og ástand þorskstofnsins heldur en skoðun Hafró. En eftir hverju á ráðherra að fara þegar hann tekur afstöðu? Það hlýtur að vera eðlilegt að hann fylgi ráðleggingum þeirrar stofnunar sem gagngert hefur verið sett á laggirnar til þess að rannsaka þessi mál og ráðleggja stjórnvöldum. Ef menn ætluðu alltaf að hunsa ráðleggingar Hafró, væri þá ekki bara heiðarlegra að leggja stofnunina niður? Ég held líka að með þessari ákvörðun setji ráðherra töluverðan þrýsting á Hafró. Hann getur sagt sem svo að nú hafi hann farið að þeirra ráðleggingum og ef þær skila ekki árangri þá sé rétt að endurskoða starfsaðferðir stofnunarinnar.

Öllum er þó morgunljóst að kvótaniðurskuðurinn mun hafa mjög neikvæð áhrif í öllum útgerðarbæjum landsins. Tekjur fyrirtækja minnka, störf í fiskveiðum, fiskvinnslu og afleidd störf munu tapast. Þetta þýðir gríðarlegan tekjumissi fyrir sveitarfélögin. Við þessu þarf að bregðast. Ríkisstjórnin hefur boðað mótvægisaðgerðir sem ætlað er að koma byggðunum til hjálpar. Að mínu mati er það allra mikilvægast að mótvægisaðgerðunum fylgi störf inn í sveitarfélögin í stað þeirra sem tapast. Aðstæður eru mjög mismunandi eftir bæjarfélögum og því er mikilvægt að stjórnvöld hafi gott samráð við sveitastjórnir og heimamenn um það hvernig sé best að haga aðgerðunum.

Í Frumkvöðlasetrinu í Nýheimum á Hornafirði hefur á undanförnum árum verið lögð mikil rækt við rannsóknar - og nýsköpunarstarf. Þar er starfrækt Haskólasetur á vegum Háskóla Íslands og Matís er með starfstöð í Frumkvöðlasetrinu auk fjölda annarra stofnana og fyrirtækja. Háskólasetrið hefur m.a. haft það í för með sér að algjör sprenging hefur átt sér stað á meðal Hornfirðinga í fjarnámi á háskólastigi. Hjá Matís hafa verið stundaðar rannsóknir sem miða að því að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi. Nægir þar að nefna Humarhótelið svokallaða þar sem humar er geymdur á "hóteli" í tiltekinn tíma svo hægt sé að selja hann ferskan þegar markaðsaðstæður eru hagstæðar. Ég tel það mjög mikilsvert að horft sé sérstaklega til starfsemi eins og þessarar og þá ekki síst vegna þess að hér er um að ræða rannsóknir og þróunarvinnu sem miðar að því að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband