Leita í fréttum mbl.is

Skilmálar óvirkir meðan bæjarráð reiknar sig í plús

Athyglisvert er að lesa pistil hins nafnlausa og andlitslausa bæjarráðs Hornafjarðar, sem birtist á veraldarvefnum á annan í páskum, um tilboð í endurbætur á Heppuskóla. Það kemur mér ekki á óvart að fulltrúar Framsóknaríhaldsins skuli hvorki vilja leggja nafn sitt né andlit við pistilinn – enda ómerkilegt yfirklór sem dugar ekki til þess að bæta stöðu sveitarfélagsins vegna þessa óheppilega máls.  Best að fela sig á bakvið fallega mynd af Heppuskóla.

            Bæjarráð staðfestir í raun þær athugasemdir sem ég hef haft um málið. Bæjarsjóður Hornfirðinga er 5 milljónum króna fátækari vegna óvandaðra vinnubragða fulltrúa Framsóknar – og Sjálfstæðisflokks í bæjarráði. Fram hjá þeirri staðreynd verður ekki litið.

Engin afsökunarbeiðni

Ekki verður annað lesið úr pistli bæjarráðs en að vitlausir útboðsskilmálar hafi verið samþykktir í bæjarráði. Ætlunin var aldrei sú að skilmálar útboðsins yrðu túlkaðir með þeim hætti sem fyrirtækið – þetta sem sveitarfélagið þurfti að borga bætur - og lögfræðingur sveitarfélagsins gerðu. Allt saman einn stór misskilningur – voða íslenskt eitthvað.

Þessi handarbaksvinnubrögð eru bæjarbúum dýr. Þrátt fyrir það þá dettur aðalfulltrúum í bæjarráði ekki í hug að biðja bæjarbúa afsökunar á klúðri sínu. Það hefð verið allt í lagi þar sem það eru bæjarbúar sem borga brúsann. Varla er valdhrokinn orðinn slíkur að mönnum hugkvæmist ekki einu sinni að biðjast afsökunar á mistökum sínum?

Hvað ef mismunur tilboðanna hefði þurrkast út?

Hið andlits – og nafnlausa bæjarráð virðist telja að það sleppi með skrekkinn á meðan það getur reiknað sig í plús. Það stærir sig af því að þrátt fyrir sitt eigið klúður þá muni ennþá 13 milljónum á tilboðunum. Það er kjarninn í málsvörn bæjarráðs. En hvernig hefði þetta sama bæjarráð tekið á málinu ef mismunur tilboðanna hefði þurrkast út vegna sáttar við fyrirtækið sem taldi á sér brotið? Hefði bæjarráð þá farið eftir skilmálum útboðsins? Getur verið að það sé nauðsynlegt fyrir aðila, sem hyggjast bjóða í verk hjá sveitarfélaginu, að spyrja bæjaryfirvöld hvort til standi að fara eftir samþykktum útboðsskilmálum? – hvort bæjarráð meini það sem það segi?

Eftir það sem á undan er gengið þá getur bæjarráð Hornafjarðar ekki kvartað undan því að fólk og fyrirtæki beri ekki lengur óskorað traust til bæjarráðs þegar kemur að útboðsmálum.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband