Leita í fréttum mbl.is

Í upphafi skyldi endinn skoða

Kastljós fjölmiðlanna beinist þessa dagana fyrst og fremst að kaupum Magma Energy á HS Orku - eða öllu heldur að síðbúnu upphlaupi innan ríkisstjórnarflokkanna vegna málsins. Nokkrir þingmenn annars stjórnarflokksins hóta nánast stjórnarstlitum verði ekki farið að ítrustu kröfum þeirra, þ.e. að ríkið rifti kaupsamningi Magma á HS Orku. Erfitt er að verða við þeirri kröfu enda er ríkið ekki aðili að samningnum en sjálfsagt er að skoða málið frá öllum hliðum.

Grundvöllur þeirrar riftunar er sá að brotin hafi verið lög um erlenda fjárfestingu þegar Magma Energy stofnaði eignarhaldsfélag - skúffufyrirtæki - í Svíþjóð til þess að geta fjárfest í HS Orku. Sjálfsagt er að kanna það til hlítar hvort lög hafi verið brotin en þar til búið er að fá úr því skorið með fullnægjandi hætti færi betur á því að spara stóru orðin.

Tilurð hins sænskættaða skúffufyrirtækis má rekja til laga um erlenda fjárfestingu. Þar er kveðið á um að einkaaðilum frá Íslandi og öðrum EES ríkjum sé heimilt að fjárfesta í raforkuframleiðslufyrirtækjum á Íslandi. Fyrirtækjum frá Búlgaríu, Póllandi, Danmörku, Bretlandi og Rúmeníu - bara svona til að nefna nokkur ríki sem eru aðilar að EES - er því frjálst að fjárfesta í HS Orku.

Einkaeign eða opinbert eignarhald

Hvort einkaaðilinn sem eignast HS Orku er kanadískur, sænskur eða íslenskur getur því varla skipt höfuðmáli við afgreiðslu þessa máls enda liggur fyrir að aðrir en Íslendingar geta eignast HS Orku skv. gildandi löggjöf. Þetta vita þeir sem krefjast þess að ríkisstjórnin rifti samningnum enda er þeim alveg sama hvers lenskir eigendurnir eru. Pólitísk markmið þeirra snúast um að öll raforkuframleiðsla sé í höndum hins opinbera. Það er gott og gilt sjónarmið en hæpið er að breið pólitísk samstaða geti skapast um þá framtíðarsýn.

Grundvallaratriðið sem flestir eru sammála um - fyrir utan nokkra sértrúarmenn á hinum væng stjórnmálanna - er að tryggja opinbert eignarhald á náttúrauðlindunum sjálfum og ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks lögfesti árið 2008 ákvæði þess efnis að ríki og sveitarfélögum er óheimilt að selja orkuauðlindir sínar til einkaaðila. Þá var einkavæðingarferli Hitaveitu Suðurnesja hins vegar hafið. Upphafleg einkavæðing Hitaveitu Suðurnesja fól ekki bara í sér nýtingarrétt þáverandi eigenda - m.a. Geysis Green Energy, sem var í eigu FL Group - heldur líka eignarrétt. Staðan í dag er hins vegar sú að HS Orka hefur einungis nýtingarrétt á orkuauðlindinni en auðlindin sjálf er í eigu Reykjanesbæjar.

Stytting nýtingarréttarins og forkaupsréttur ríkisins

Kaup Magma á HS Orku eru sannarlega ekki yfir gagnrýni hafin. Full ástæða er til endurskoða lengd nýtingarréttarins og framlengingarákvæði samningsins. Nýtingarréttur til svo langs tíma er mjög umdeilanlegur. Ríkisstjórnin á líka að leita allra leiða til að tryggja forkaupsrétt ríkisins á fyrirtækinu. Einnig verður að tryggja eigendum auðlindarinnar eðlilegan arð af nýtingu þeirra. Það á að sjálfsögðu að gilda um nýtingu allra náttúruauðlinda landsmanna. 

Einnig er sjálfsagt og eðlilegt að rannsakað verði hvort eðlilega hafi verið staðið að einkavæðingu Hitaveitunnar á sínum tíma og brýnt er að lög um erlenda fjárfestingu verði endurskoðuð til að koma í veg fyrir svona klúður í framtíðinni.

Allt AGS að kenna?

Umræðan um kaupin hefur hins vegar verið á mjög lágu plani síðustu daga. Allt er gert til þess að gera samninginn eins tortryggilegan og hægt er og tilgangurinn helgar algjörlega meðalið í þeim efnum.

Á frumlegum fyrirlestri sem haldinn var fyrir skemmstu – aðstandendur töluðu reyndar um blaðamannafund – var gerð tilraun til að tengja söluna á HS Orku við Ice Save málið. Það er vinsæl aðferð í dag – og algjörlega gulltryggt að hún virkar – þegar málefnaleg rök skortir að tengja mál við uppgjör Ice Save skuldarinnar. Það ýtir undir allt í senn; tortryggni, grunsemdir, hræðslu og reiði.

Þessa eiginleika þjóðarsálarinnar er auðvelt að virkja um þessar mundir og ekkert beittara vopn er tiltækt í þeim efnum en Ice Save. Formanni Framsóknarflokksins tókst þó að toppa bullið á vinsældaveiðum sínum með þvi að tengja kaupin við samstarf stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Að tengja AGS við umdeil mál er, auk tengingarinnar við Ice Save, skotheld leið til þess að tryggja að örugglega sjáist ekki til botns í gruggugu vatninu. Núverandi stjórnarliðar geta svo velt vöngum yfir því hvort vöflur væru á formanni Framsóknarflokksins við að styðja samninginn um kaupin væri hann í aðstöðu til að leiða málið til lykta. 

Velferðarkerfið - brýnasta verkefnið

Þessu máli verður að lenda sem allra fyrst í ríkisstjórninni. Það er alltof mikið í húfi til þess að fórna ríkisstjórnarsamstarfinu út af Magma. Búið er að takast á við margvíslegar afleiðingar efnahagshrunsins en mörg verkefni bíða enn úrlausnar. Í mínum huga er grundvallaratriðið ennþá að félagshyggju - og jafnaðarstjórn sé við völd til að takast á við þau vandamál sem við er að etja í kjölfar efnahagshruns frjálshyggjunnar.

Kjósendur voru sammála félagshyggjuöflunum um að niðurbrot á velferðarkerfinu þýddi niðurbrot á samfélaginu. Af þessum ástæðum er núverandi ríkisstjórn við völd - kjósendur treystu félagshyggju - og jafnaðarflokkunum til að standa vörð um velferðarkerfið á tímum gríðarlegra þrenginga. Hrunflokkunum er ekki treystandi til þess og því var þeim hafnað. Það hefur ekki breyst.

Þetta skyldi allt félagshyggju - og jafnaðarfólk hugleiða vandlega áður en afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar vegna mála sem ríkisstjórnin hefur litla eða takmarkaða stjórn á.

Niðurstaða raunsæs jafnaðarmanns

Lágmörkum hugsanlegan skaða af kaupum Magma Energy á HS Orku með því að stytta nýtingarrétt fyrirtækisins á orkuauðlindinni, tryggjum forkaupsrétt ríkisins, hefjum rannsókn á einkavæðingarferli Hitaveitu Suðurnesja og endurskoðum lög um erlenda fjárfestingu.

Snúum okkur síðan að öðrum brýnum málum eins og því að verja velferðarsamfélagið í áframhaldandi niðurskurði á fjárlögum, stjórnlagaþingi, lýðræðislegri afgreiðslu þjóðarinnar á aðildarsamningi við ESB, raunverulegri þjóðareign á öllum náttúruauðlindum og fleiri grundvallarmálum sem sameina allt jafnaðarfólk.

Í framtíðinni verður þessi ríkisstjórn ekki dæmd út frá lyktum þessa máls heldur út frá því hvort henni tókst á erfiðum og viðsjárverðum tímum að reisa við efnahag þjóðarinnar, verja velferðina og búa almenningi skilyrði til þess að komast standandi út úr kreppunni. Ef þessi verkefni mistakast er hætt við að dómur sögunnar vegna Magma verði hjómið eitt í samanburði við þann dóm sem vinstri flokkarnir fá fyrir það að klúðra sögulegu tækifæri sínu til þess að endureisa samfélagið á traustum grunni hugsjóna jafnaðarmanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Algjörlega sammála þessu.

Jón Halldór Guðmundsson, 5.8.2010 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband