Leita í fréttum mbl.is

Fjármál framboðanna

Mikil umræða hefur farið fram um fjármál stjórnmálaflokkanna undanfarin ár. Efnahagshrunið varð síður en svo til þess að róa þá umræðu. Töldu margir að hrunið hefði leitt í ljós hverra erinda stjórnmálamennirnir í landinu gengju. Eitt er víst að á góðærisárunum fyrir hrun þá hækkuðu styrkir fyrirtækja og einstaklinga til flokkanna og stjórnmálamanna í réttu hlutfalli við flottræfisháttinn sem viðgekkst í samfélaginu.

Skemmst er að minnast risastyrkja Landsbankans og FL group til Sjálfstæðisflokksins á síðustum dögum ársins 2006. Uppljóstrun þeirra styrkja leiddi til þess að Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að endurgreiða þá - vaxtalaust. Það sem gerði þessa tilteknu styrki sérstaklega ámælisverða - fyrir utan hversu háir þeir voru - var að þeir voru reiddir af hendi nokkrum dögum eftir að lög um fjármál stjórnmálaflokka voru samþyktk á Alþingi en nokkrum dögum áður en lögin áttu að taka gildi.

Tilgangur laganna sem hér um ræðir var einmitt að draga úr hættunni á hagsmunaárekstrum á milli atvinnu - og viðskiptalífs og stjórnmálanna og að tryggja gagnsæi í fjármálum stjórnmálamanna og flokka. Markmiðin voru þau að auka traust og tiltrú almennings á starfsemi stjórnmálasamtaka og að efla lýðræði í landinu. Skiptar skoðanir eru uppi um það hvort markmið laganna hafi náð fram að ganga.

Í II. kafla laganna er fjallað um framlög ríkis og sveitarfélaga til stjórnmálastarfsemi. Þar kemur fram að sveitarfélögum með fleiri en 500 íbúa er skylt að veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í bæjarstjórn eða hafa hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum kosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar. Þau framboð, sem nú eiga fulltrúa í bæjarstjórn Hornafjarðar starfa því - og störfuðu á sl. kjörtímabili - að stórum hluta fyrir fé úr sameiginlegum sjóðum bæjarbúa - eins og væntanlega framboð í öðrum sambærilegum sveitarfélögum, sé farið að lögum.

Kjósendur á Hornafirði eiga því heimtingu á því - eins og aðrir landsmenn - að fjármál þeirra framboða sem starfa í þeirra umboði séu uppi á borðum og öllum kunn. Upplýsingar frá framboðunum um kostnað og styrki vegna sveitarstjórnakosninga sl. vor eru því nauðsynlegar til þess að tryggja gagnsæi í störfum sveitarstjórnar og lýðræðisleg vinnubrögð. Birting slíkra upplýsinga getur líka eytt tortryggni í garð framboðanna - sé hún til staðar á annað borð.

Af þessum ástæðum mun ég á næsta fundi bæjarráðs leggja fram eftirfarandi tillögu:

Bæjarráð beinir þeim tilmælum til þeirra flokka, sem buðu fram til bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Hornafirði sl. vor, að þeir leggi fram upplýsingar um heildarkostnað og styrki (t.d. bein fjárframlög einstaklinga og lögaðila, afslættir af leigu kosningamiðstöðva, aðrir afslættir og annað sem talist getur styrkur) vegna framboða sinna.

Ég á ekki von á öðru en tillagan muni hljóta hljómgrunn í bæjarráði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Auknar skyldur færast á þá aðila sem njóta styrkja eða stuðnings opinberra aðila. Oipinberir aðilar verða að gera upplýsingar um fjármál sín þannig upp að unnt sé að skoða í hvaða verkefni opinbert skattfé fer.

Þá eru sömu aðilar skyldir að afhenda skjöl til Þjóðskjalasafns ef starfsemin er lögð niður. Þannig gildir um félagastarfsemi sem nýtur opinberra styrkja.

Það er skynsamleg regla að allir sem njóta styrkja geri hreint fyrir sínum dyrum. Það er því með öllu ósættanlegt að sumir stjórnmálamenn hunsi þessa sanngjörnu kröfu. Með því að hunsa þessa skyldu eru þeir að gefa lýðræðinu langt nef og selja sig í hendur á spillingunni.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 8.7.2010 kl. 15:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband