Leita í fréttum mbl.is

Bera sveitarfélög ábyrgð í atvinnumálum?

Öll byggð ból byggja tilveru sína á því að íbúarnir hafi atvinnu. Atvinnutækifæri eru forsenda byggðar. Fjölbreytni í atvinnulífinu hlýtur því að treysta búsetu á einstökum svæðum betur en einsleitni.

Bera sveitarfélög einhverja ábyrgð í þessum málaflokki eða eiga þau að eftirláta hinum frjálsa markaði þróun og eflingu atvinnulífsins? Þeirri spurningu hefur í raun verið svarað. Eftir að atvinnuleysi jókst í kjölfar hrunsins er hrópað á opinbera aðila - ríki og sveitarfélög - að grípa til aðgerða. Sveitarfélög eru einnig hluti af vinnumarkaðnum bæði í gegnum innkaup á vörum og þjónustu og sem atvinnurekandi. Ótvírætt er því að sveitarfélög bera mikla ábyrgð í atvinnumálum.

Hvert er hlutverk sveitarfélaganna?

Hlutverk og ábyrgð sveitarfélagsins felst fyrst og fremst í því að skapa aðstæður og forsendur fyrir öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi, sem býður fólki uppá spennandi atvinnutækifæri. Liður í að skapa aðstæður fyrir þróun og eflingu atvinnulífs - og þar með fjölbreyttum atvinnutækifærum - er að sveitarfélagið komi að uppbyggingu stuðningsnets fyrir atvinnulífið. Gott dæmi um þetta er uppbygging Nýheima, starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar , starf Háskólaseturs og aðrar stofnanir sem með beinum eða óbeinum hætti styðja við atvinnulífið. Áframhaldandi velvilji og stuðningur sveitarfélagsins við þetta starf er því mjög mikilvægur.

Aðkoma sveitarfélagsins að einstökum verkefnum er hins vegar ekki einföld. Taka verður tillit til jafnræðis - og samkeppnissjónarmiða og passa verður að með stuðningi við einn sé ekki verið að brjóta á öðrum. Hér er því um jafnvægislist að ræða. Því verður hins vegar ekki á móti mælt að fólk lítur til sveitarfélagsins sem mikilvægs aflvaka í atvinnumálum.

Mörg járn í eldinum

Á yfirstandandi kjörtímabili hefur sveitarfélagið unnið að eflingu atvinnulífsins með ýmsum hætti. Á grundvelli könnunar sem sveitarfélagið lét vinna um fýsileika vatnsútflutnings af svæðinu var undirritað samkomulag við Rolf Johansen og Co. um uppbyggingu átöppunarverksmiðju fyrir vatn. Í samræmi við samkomulagið er nú unnið að rannsóknum og undirbúningi verkefnisins. Fyrstu niðurstöður gefa tilefni til bjartsýni. Verksmiðjan mun, ef af verður, skapa 5 - 10 heilsársstörf þegar afkastagetan hefur náð hámarki.

Átta kaupleiguíbúðir voru seldar til einkaaðila, sem nú nýtast í þágu ferðaþjónustunnar og sömu sögu má segja um eignir sveitarfélagsins í Nesjaskóla. Sveitarfélagið kom að stofnun ferðaþjónustu-, menningar - og matvælaklasa í ríki Vatnajökuls og leggur klasanum til 3 milljónir króna á ári. Atvinnu - og rannsóknarsjóður var settur á laggirnar í byrjun árs 2009 með 20 milljóna króna framlagi, sem varð til við sölu fasteigna sveitarfélagsins í Nesjaskóla. Fjölmörg atvinnuskapandi verkefni hafa hlotið styrki úr sjóðnum.  Verkefnin, sem hér hafa verið nefnd, eru bara brot af þeim verkefnum sem sveitarfélagið hefur átt aðkoma að á kjörtímabilinu. Upptalningin sýnir hins vegar að sveitarfélagið er mjög virkt í viðleitni sinni við að hlúa að atvinnulífi svæðisins - í samræmi við hlutverk sitt.  


Árni Rúnar Þorvaldsson

Bæjarfulltrúi og skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar

Stephen Róbert Johnson

Varabæjarfulltrúi og skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Árni,

Áhugavert að lesa þennan pistil og vissulega er ég sammála því að hlutverk sveitarfélaga er að stuðla að öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi.

Í fréttablaðinu þann 7 maí seinastliðinn gáfu Reykjavíkurborg og atvinnumálastofnun út fylgisnepil þar sem var auglýst voru 856 störf tileinkuð námsmönnum og atvinnuleitendum. Aftan á þessum pésa má svo lesa um sveitarfélög sem taka þátt í þessari þróunarvinnu. Þar er hvergi að sjá að sveitarfélagið Hornafjörður sé meðal þáttakenda.

Eru uppi einhverjar hugmyndir um að skapa tímabundin störf eða verkefni fyrir ungt fólk sem vill koma heim í sveitina milli námsanna?

Samfylkingarkveðjur!

Elmar Gunnarsson (IP-tala skráð) 12.5.2010 kl. 17:15

2 Smámynd: Árni Rúnar Þorvaldsson

Þakka þér fyrir athugasemdina og athyglisverða ábendingu.

Rétt er að taka það fram að útlitið með atvinnu í sumar er nokkuð gott. Forsenda þess að það gangi eftir er auðvitað að ferðaþjónustan verði ekki fyrir áföllum vegna náttúruhamfara.+

Á þeim svæðum þar sem núna er meira atvinnuleysi en menn eiga að venjast er verið að ráðast í átak til að stemma stigu við vandanum. Sem betur fer horfum við ekki fram á sömu vandamál og mörg önnur svæði hvað varðar sumaratvinnu.

En við þurfum alltaf að vera vakandi fyrir nýjungum til þess einmitt að efla og styrkja atvinnulífið svo hægt sé að laða sem mest af ungu fólki til staðarins.

Árni Rúnar Þorvaldsson , 15.5.2010 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband