Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Flott afmælishátíð í Skaftafelli

Það var sannarlega mikið um dýrðir í þjónustumiðstöðinni í Skaftafellsþjóðgarði á laugardaginn. Fjöldi manns var þar saman kominn til þess að fagna með Öræfingum 40 ára afmæli þjóðgarðsins.

Fjöldi velunnara þjóðgarðsins lögðu leið sína í Skaftafell á laugardaginn til þess að taka þátt í hátíðahöldunum. Þar var t.d. mættur dr. Jack Ives sem hefur vanið komur sínar í Skaftafell frá árinu 1952. Hann hefur nú skrifað bók sem tileinkuð er þjóðgarðinum í Skaftafelli. Ég fékk tækifæri til þess að glugga í bókina á afmælishátíðinni, þar er sannarlega um glæsilegt afrek að ræða.

Ragnar Frank Kristjánsson, þjóðgarðsvörður lagði það til í sínu erindi að einn tiltekinn tindur innan þjóðgarðsins yrðir nefndur eftir dr. Jack Ives. Féll sú tillaga í góðan jarðveg hjá afmælisgestum.

Ítarleg umfjöllun er um dr. Ives í laugardagsblaði Morgunblaðsins.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra flutti prýðisgott erindi um þjóðgarðinn og sögu hans. Greinilegt var á hennar máli að hún ber hlýjar taugar til þjóðgarðsins og hefur mikinn metnað gagnvart væntanlegri stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég er þess fullviss að þessi málaflokkur er í góðum höndum hjá henni.

Rauði þráðurinn í málflutningi flestra sem til máls tóku fannst mér vera mikilvægi samstarfs við heimamenn bæði hvað varðar stofnun og rekstur þjóðgarðs. Í mínu máli lagði ég áherslu á það að á sveitarstjórnarstiginu á Hornafirði hafa menn alltaf talað fyrir skýrri aðkomu heimaaðila að rekstri þjóðgarðsins. Einnig lagði ég á það ríka áherslu að rætur væntanlegs Vatnajökulsþjóðgarðs liggja að mínu mati í Skaftafellsþjóðgarði og þessi treysti ég og trúi því að þjónustumiðstöðin í Skaftafelli verði einn mikilvægasti hlekkurinn í nýjum Vatnajökulsþjóðgarði.


Þjóðgarðurinn í Skaftafelli 40 ára í dag

Í dag er boðið upp á glæsilega dagskrá í Skaftafelli í tilefni af 40 ára afmæli þjóðgarðsins í Skaftafelli. Sannarlega merkilegur áfangi og þjóðgarðurinn í Skaftafelli er í mínum huga einn merkasti hornsteinninn í sögu íslenskrar náttúruverndar.

Þessi áfangi í Skaftafelli leiðir líka hugann að stofnun stærsta þjóðgarðs Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarðs sem ráðgert er að verði formlega stofnaður snemma á næsta ári. Í mínum huga leikur enginn vafi á því að rætur væntanlegs Vatnajökulsþjóðgarðs liggja í Öræfum nánar tiltekið í Skaftafelli.

Af þeim sökum finnst mér gríðarlega mikilvægt að áfram verði hlúð að Skaftafelli og þjónustumiðstöðinni þar enda tel ég fullvíst að Skaftafell mun leika eitt mikilvægasta hlutverkið í hinum nýja þjóðgarði. Þar er reynslan og þekkingin á þjóðgarðsmálum.


Enn af mótvægisaðgerðum

Ég eru búinn að nota frítímann eftir kennslu í dag til þess að fara yfir þær mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í gær.

Eftir því sem ég skoða tillögurnar betur sýnist mér að við hér á Hornafirði megum að mörgu leyti vel við una. Það er greinilegt að okkar sjónarmið hafa verið uppi á borðinu í þessari vinnu ríkisstjórnarinnar. Enda eru þær tillögur sem kynntar hafa verið fyrir þetta svæði mjög í takti við þær tillögur sem sveitarstjórnarmenn hér hafa talað fyrir.

Greinilegt er að iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson ætar sér stóra hluti með Nýsköpunarmiðstöðina sem hann opnaði á dögunum á Vestfjörðum því tvö stöðugildi á vegum hennar verða staðsett á Hornafirði og í Vestmannaeyjum samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar.

Haft er eftir Össuri á forsíðu Moggans í dag að hér sé um að ræða öflugustu mótvægisaðgerðir sem nokkur ríkisstjórn hefur gripið til vegna erfiðleika í atvinnulífi landsmanna.

Ég tek undir það með honum að með þessum aðgerðum er verið að styrkja innviði samfélaganna sem verða fyrir barðinu á kvótaskerðingunni. Skammtímalausnir duga ekki til þess að byggja samfélögin upp til framtíðar. Auðvitað er það þannig að ekki er komið nægjanlega mikið til móts við fyrirtækin sem lenda í vandræðum vegna kvótaskerðingarinnar og þeirra einstaklinga sem koma til með að missa atvinnuna í kjölfar kvótaskerðingarinnar líkt og margir hafa bent á.

Það er hins vegar morgunljóst í mínum huga að það er fyrst og fremst hlutverk ríkisvaldsins að styrkja innviðina og skapa hvetjandi aðstæður fyrir fólk til þess að koma hlutum á hreyfingu í sínu samfélagi.

Ég held líka að það væri tilvalið verkefni fyrir ríkisstjórnina og Samband íslenskra sveitarfélaga í kjölfarið á þessari ákvörðun að setjast rækilega yfir tekju - og verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það markmiði að styrkja sveitarfélögin enn frekar og bæta þjónustu við íbúa sveitarfélaganna.


Mótvægisaðgerðir

Ég er búinn að taka mér smátíma í kvöld til þess að fara yfir tillögur ríkisstjórnarinnar í mótvægisaðgerðunum vegna niðurskurðarins á þorskkvótanum fyrir næsta fiskveiðiár. Við fyrstu sýn virðast þetta vera nokkuð skynsamar tillögur sem geta í fyllingu tímans gagnast þeim byggðalögum sem hvað harðast verða úti vegna kvótaskerðingarinnar. Þó hefðu auðvitað allir viljað fá eitthvað meira.

Við hér á Hornafirði lögðum áherslu á það í okkar málflutningi að litið yrði sérstaklega til uppbyggingar Vatnajökulsþjóðgarðs í tengslum við mótvægisaðgerðir á þessu svæði. Það er t.a.m. okkar skoðun að höfuðstöðvar þjóðgarðsisn eigi heima hér í sveitarfélaginu. Að einhverju leyti sýnist mér að ríkisttjórnin ætli að koma til móts við óskir okkar þó við hefðum að sjálfsögðu viljað sjá höfuðstöðvarnar strax hér og að uppbyggingu í þjóðgarðinum yrði hraðað.  

Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir ráðningu tveggja nýrra starfsmanna í frumkvöðla - og háskólasetrinu i Nýheimum. Áhersla þessara tveggja starfsmanna verður á að styrkja starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs.

Ég eins og sennilega flestir aðrir sem koma að þessum málum hefði auðvitað viljað sjá stærri skref stigin í því að höfuðstöðvar þjóðgarðsins verði í sveitarfélaginu en auðvitað ber að fagna öllum þeim skrefum sem tekin eru.

En ég á eftir að fara betur yfir tillögur ríkisstjórnarinnar að mótvægisaðgerðum á næstu dögum og kynna mér þær betur.


Einstæðar mæður í vanda

Heldur þykir mér dapurlegt að lesa frétt eins og þessa um aðstæður margra einstæðra mæðra í dag. Það er alveg ljóst að vandi þessa fólks er mikill og konurnar á svo miklum hrakhólum að þær neyðast til að leita aftur á náðir til manna sem hafa beitt þær ofbeldi.

Ég held að allir Íslendingar geti verið sammála um að þetta ástand er óþolandi og við verðum að bregðast við því. Jafnaðarmannaflokkur sem situr í ríkisstjórn verður að láta hendur standa fram úr ermum til bæta ástandið hjá þessum þjóðfélagshóp. Það er ekki hægt að búa við það að fjöldinn allur af fólki búi við svo bágbornar aðstæður.

Þetta skaðar þjóðfélagið í heild til lengri tíma litið ef þetta verður látið viðgangast.

Ég trúi ekki öðru en að jafnaðarmenn í ríkisstjórn bregðist við þessu slæma ástandi með öruggum og markvissum hætti.


Þjónustusamningur, skýrsla Ríkisendurskoðunar o.fl.

Af því að þjónustusamningurinn um rekstur heilbrigðis - og öldrunarmála hefur verið til umföllunar að undanförnu eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd samningsins kom út á föstudaginn þá birti ég hér langhund sem ég flutti um málefni Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands og þjónustusamningsins á síðasta bæjarstjórnarfundi. Hafa ber í huga að ræðan er flutt degi áður en endanleg skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út. En hér er ræðan:

Eins og allir eflaust vita nú hafa samningaviðræður við Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytið um áframhaldandi þjónustusamningu um rekstur heilbrigðis - og öldrunarþjónustu í sveitarfélaginu staðið yfir í tæpt ár. Þetta er vissulega orðinn langur og strangur tími og síðasti þjónustusamningur rann út um síðustu áramót. Auðvitað er það bagalegt fyrir okkur sem rekum stofnunina og fólkið sem starfar þar að ekki skuli vera búið að ganga frá nýjum samningi. Slík óvissa er aldrei góð.

Eins og flestir vita og alveg örugglega allir hér inni vita þá var gerð tilraun til þess að ljúka samningsgerðinni í fyrri hluta maí á þessu ári eða korteri fyrir kosningar eins og einhver sagði. Það tókst þó ekki á þeim tímapunkti vegna þess að erfitt reyndist fyrir fjármálaráðuneytið til þess að ljúka sinni vinnu í tengslum við samninginn á þeim tíma af ýmsum ástæðum.

Síðan þetta gerðist allt saman hefur ýmsu skolað á land sem breytir að einhverju leyti þeim forsendum sem við vorum að vinna út frá á þeim tímapunkti. Þar má sem dæmi nefna úttekt Ríkisendurskoðunar á framkvæmd síðasta þjónustusamnings. Forsaga málsins er sú að á fundi sínum 16. janúar síðastliðinn fól bæjarráð bæjarstjóra að fara þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún geri stjórnsýslu - og fjárhagsúttekt á HSSA. Heilbrigðis - og öldrunarráð fór þess einnig á leit að starfsmenn sveitarfélagsins óskuðu eftir stjórnsýsluúttekt hjá Ríkisendurskoðun á fundi sínum 9. janúar. Þessari skýrslugerð er í þann mund að ljúka. Bæjarfulltrúar hafa nú þegar fengið í hendurnar drög að skýrslunni og hafa þau verið rædd sérstaklega á vinnufundi bæjarstjórnar. Eftir þann fund samþykkti svo bæjarráð athugasemdir bæjarstjóra við drögin að skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Nú er s.s. ákveðin biðstaða í málinu. Ákveðið hefur verið að bíða eftir endanlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar og skoða svo samningsdrögin eins og þau liggja fyrir með hliðsjón af þeim ábendingum sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar. En það hefur bæði verið rætt við heilbrigðis – og fjármálaráðherra og það er mitt mat að skýr vilji sé til þess að ljúka þessu máli hratt og örugglega að því loknu þannig að við stöndum uppi með metnaðarfullan samning að þessu loknu. Mig langar einnig til þess að nefna hér eitt mál í viðbót varðandi fundargerð heilbrigðis – og öldrunarráðs en það er 6. liður þeirrar fundargerðar þar sem rætt var um læknamál í sveitarfélaginu. Í þjónustukönnun sem við fengum til þess að gera fyrir okkur í mars síðastliðnum kemur fram töluverð óánægja með læknisþjónustuna í sveitarfélaginu. Rúmlega 60% aðspurðra eru óánægð með læknaþjónustu í sveitarfélaginu. Þetta er auðvitað áhyggjuefni og ber að taka alvarlega. Heilbrigðis – og öldrunarráð ræddi læknamálin á síðasta fundi sínum og reyndi að greina vandann. Ef ég ætti að reyna að túlka sameiginlega niðurstöðu fundarmanna þá myndi ég segja að það hafi verið sameiginleg niðurstaða okkar ástæða óánægjunnar hafi ekki verið sú að aðgengi að læknum sé lélegt heldur sú að stöðugleikann vanti í þjónustuna. Heilbrigðis – og öldrunarráð lítur þetta mál mjög alvarlegum augum og það er ljóst að við verðum að reyna að bregðast við enda kalla íbúar sveitarfélagsins á aðgerðir. Af þeim sökum fór ráðið fram á það við framkvæmdastjóra HSSA að koma með tillögur að leiðum til úrbóta á næsta fundi ráðsins. Auðvitað gerir ráðið sér fulla grein fyrir því að ekki eru til neinar patent lausnir á vandamálinu en okkur ber skylda til þess að hlusta á raddir íbúanna og í þessu máli tala þeir mjög skýru máli í könnuninni.

En vandamálið er í raun margþætt. Læknar eru ekki eina háskólamenntaða fólkið sem vantar til starfa í sveitarfélaginu. Við auglýstum t.a.m. eftir tæknimenntuðum manni til þess að stýra tækni – og umhverfissviðinu hjá sveitarfélaginu. Skemmst er frá því að segja að okkur barst ekki ein einasta umsókn frá manneskju með slíka menntun. Einnig er nokkuð stöðugur skortur á menntuðum kennurum í leik – og grunnskólunum. Þannig að það eru ekki bara læknastöðurnar sem erfitt er að manna heldur flæðir þetta ástand yfir ýmsar aðrar atvinnugreinar.

(Flutt á bæjarstjórnarfundi 06. september 2007) 

 


Sveitarfélögin sjái um nærþjónustu

Ríkisendurskoðun birti í dag úttekt sína framkvæmd þjónustusamnings sem verið hefur við lýði á milli Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytisins og Sveitarfélagsins Hornafjarðar um rekstur heilbrigðis - og öldrunarþjónustu í sveitarfélaginu. Birtar hafa verið fréttir um málið á öllum helstu vefmiðlum landsins.

Ekki það að mér finnist það ekki sjálfsagt að vefmiðlarnir birti tilkynningu Ríkisendurskoðunar á sínum miðlum þá hefði mér þótt það meiri fréttamennska af þeirra hálfu ef þeir hefðu leitað eftir viðbrögðum frá okkur sem stýrum sveitarfélaginu og úr ráðuneytinu. Þá hefði fréttaflutningurinn sagt fréttaþyrstum lesendum vefmiðlanna meira en þurr fréttatilkynning Ríkisendurskoðunar.

Í byrjun árs fól bæjarráð Hornafjarðar bæjarstjóranum, Hjalta Þór Vignissyni að leita eftir því við Ríkisendurskoðun að hún framkvæmdi stjórnsýsluúttekt á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands í tengslum við þjónustusamninginn sem rann út um síðustu áramót. Ríkisenduskoðun féllst á beiðnina. Ástæðan fyrir því að við vildum fara þess leið var sú að við vildum sjá það frá hlutlausum aðila hvað hefði tekist vel á samningstímanum og hvar við þyrftum að bæta okkur í framkvæmd næsta samnings. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er mikilvægt tæki fyrir okkur sem komum til með að stýra þessari stofnun næstu árin á grundvelli þjónustusamnings því hún skerpir fyrir okkur áherslur í starfinu sem við þurfum að hlúa betur að. Einnig er hún mikilvægt hjálpartæki fyrir okkur og ráðuneytið á þessari stundu til þess að setjast niður og klára þann samnning sem núna liggur fyrir þar sem farið er sérstaklega yfir þau atriði sem Ríkisendurskoðun telur að þurfi að taka sérstaklega á í nýjum samningi.

Við trúum því líka að skýrslan sem nú hefur litið dagsins ljós sé ágætt innlegg inn í umræðuna um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hún sýnir fram á það að þjónustusamningar eru ekki gallalaust fyrirbrigði í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. En á meðan þessi málaflokkur hefur ekki verið fluttur í heild yfir til sveitarfélaganna þá er það okkar skoðun að þjónustusamningur sé næst besti kosturinn.

Marg jákvætt kemur fram í skýrslunni um rekstur sveitarfélagsins á Heilbrigðisstofnuninni. Því er t.d. veitt sérstök eftirtekt að heimilisþjónusta, heimahjúkrun og heilsuvernd aldraðra hefur verið stórefld á samningstímanum. Í raun má segja að öll þjónusta sem veitt er utan stofnana hafi stóreflst á samningstímanum. Því er elst hægt að þakka markvissu og metnaðarfullu starfi starfsmanna Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands. Þessi stefna og árangur heilbrigðisstofnunarinnar er í góðu samræmi við stefnu heilbrigðisyfirvalda í landinu sem hafa markað þá skýru stefnu að gera eigi öldruðum kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði. Árangur okkar á Hornafirði í þessum málum er þannig að á 10 árum hefur hjúkrunarrýmum fækkað úr 32 í 26 og dvalarrýmum hefur fækkað úr 14 í 7.

Þetta hefði, að okkar mati, aldrei verið mögulegt nema vegna þess að stjórn sveitarfélagsins á málaflokknum hefur verið öflug þó auðvitað séu alltaf einhverjir hlutir eins og þeir sem Ríkisendurskoðun nefnir sem mættu betur fara. En á heildina litið teljum við að þetta fyrirkomulag hafi heppnast nokkuð vel. Það er líka okkar staðfasta trú og skoðun að nærþjónustan sem hér um ræðir sé betur komin hjá sveitarfélögunum en hjá ríkinu.

Ég læt þetta duga í bili um þetta mál. Enn er þó margt ósagt sem ég mun ræða frekar á næstu dögum þegar ég er búinn að kynna mér niðurstöðu Ríkisendurskoðunar betur.

Hér er hægt að hlusta viðtal við Hjalta Þór Vignisson, bæjarstjóra sem flutt var í svæðisútvarpi Austurlands í dag.  


Ríkisstjórnarsamstarfið og fjölmiðlar

Einkennileg finnst mér umræðan í fjölmiðlum um ríkisstjórnarsamstarfið. Um leið og viðskiptaráðherrann sinnir skyldum sínum og veltir upp löngu tímabærum hugleiðingum um stöðu krónunnar þá hlaupa fjölmiðlamenn upp til handa og fóta og spyrja forsætisráðherrann hvort þetta sé ekki erfitt fyrir ríkisstjórnarsamstarfið.

Ég spyr, hverju áttu menn eiginlega von á þegar Björgvin G. Sigurðsson varð viðskiptaráðherra? Áttu menn von á því að hann yrði andsnúinn því að við ræddum það alvarlega að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og þar með að fá inngöngu í myntbandalag Evrópu. Sjálfstæðismenn vita alveg hver stefna Samfylkingarinnar er í Evrópumáum og því ætti þessi umræða ekki að koma neinum á óvart. Þvert á móti kæmi það manni frekar á óvart ef viðskiptaráðherrann myndi ekki hreyfa við þessum málum.

Síðan var auðvitað sprenghlægilegt að fylgjast með viðbrögðum hæstráðandans í Seðlabankanum við þessari umræðu. Ætli hann fái launahækkun fyrir hvert skipti sem hann ber höfðinu í steininn.

Svo eru fjölmiðlamenn afskaplega áhyggjufullir yfir ríkisstjórnarsamstarfinu þegar utanríkisráðherra kalla eina friðargæsluliðann í Írak á vegum Íslands heim. Áttu þeir virkilega von á því að ráðherra sem mótmælt hefur mjög harðlega stríðrekstrinum í Írak og stuðningi Íslands við hann myndi vilja auka eða viðhalda stuðningnum við stríðreksturinn. Við skulum vera alveg heiðarlega gagnvart sjálfum okkur og viðurkenna það að nú á sér stað afskaplega lítil uppbygging í Írak. Stríðsreksturinn er ennþá í fullum gangi. Fyrrverandi utanríkisráðherra ætti frekar að horfa til þess að fregnir herma nú að Bandaríkjastjórn hyggi á árás á nágrannraríki Íraks, Íran. Það er ljótt til þess að hugsa að ein af afleiðingum stríðsrekstursins í Íraks verði sú að líka verði ráðist á Íran. Vonandi tekst skynsemishugsandi jafnaðarmannasamfélögum að afstýra slíkri skelfingu.

Annað sem veldur fjölmiðlamönnum miklum áhyggjum eru afskipti iðnaðarráðherra af Vatnlögunum. Lagasetning sem var honum alls ekki að skapi. Nú eru þessi mál á hans könnu og þá finnst mönnum undarlegt að hann ætli að taka lögin til endurskoðunar.

Það er eins og fjölmiðlar trúi því að það sé óumbreytanleg staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn sé í ríkisstjórn og það sé ávallt hlutverk samstarfsflokksins að laga sig að stefnu Sjálfstæðisflokksins þannig að stjórnarsamstarfið geti gengið snuðrulaust fyrir sig.


Sviksemi og launráð Samfylkingarinnar

Það er svolítið skondið að fylgjast með þeirri tortryggni sem ríkir á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins í garð Samfylkingarinnar og þá sérstaklega í garð formannsins.

Þar á bæ virðast menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að eina ástæðan fyrir því að Samfylkingin fór í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum hafi verið sú að sprengja ríkisstjórnina á ákveðnum tímapuntki. Ritstjórnin veit meira að segja af hverju Samfylkingin sprengir ríkisstjórnarsamstarfið. Jú, það verður út af átökum um gjaldmiðilinn. Gott er að sjá inn í framtíðina.

Staksteinar virðast hafa verið hugsaðir gagngert til þess að búa til vettvang fyrir paranoiuórana sem hafa hreiðrað um sig á ritstjórninni. Því ekki geta menn birt þessa þvælu sem birtist í Staksteinum í dag undir nafni, það segir sig sjálft.


Skipað í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs

Það var mikið gleðiefni að sjá frétt þess efnis að búið væri að skipa stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs. Ráðgert er að þessi stærsti þjóðgarður Evrópu verði formlega stofnaður snemma á næsta ári. Nokkuð var tekist á um stjórnskipan þjóðgarðsins þegar lögin um hann voru samþykkt á Alþingi. Sérstaklega þótti mörgum sem áhrif heimamanna í yfirstjórn þjóðgarðsins væru helst til mikil.

Í stjórninni sitja sjö fulltrúar. Hún verður m.a. skipuð fjórum formönnum svæðisráða. Fyrir okkar svæði situr í stjórninni Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri og varamaður hans er Björn Ingi Jónsson, bæjarfulltrúi. Umhverfisráðherra hefur skipaða Önnu Kristínu Ólafsdóttur, aðstoðarmann sinn formann stjórnarinnar. Mér þykir þetta sýna að ráðherra ætlar að vera virkur þátttandi í uppbyggingu þjóðgarðsins og fylgjast vel með gangi mála. Enda er hér um gríðarlega stórt verkefni á sviði umhverfisverndar að ræða.

Í ljósi niðurskurðar á aflaheimildum á þorski hefur sveitarstjórn Hornafjarðar bent ríkisvaldinu á það að flýta allri uppbyggingu þjóðgarðsins. Við höfum einnig lagt það til að höfðuðstöðvar þjóðgarðsins verði staðsettar hér í sveitarfélaginu, nánar tiltekið á Höfn í nágrenni við Nýheima, frumkvöðla - og fræðasetur sveitarfélgsins. Höfuðstöðvar stærsta þjóðgarðs Evrópu ættu svo sannarlega vel heima í slíku umhverfi og myndi líka styðja vel við bakið á þeirri starfsemi sem fyrir er. Öflugri mótvægisaðgerð er vart hægt að hugsa sér fyrir sveitarfélag sem er á jaðri jökulrandar Vatnajökuls.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband