Leita í fréttum mbl.is

Mikilvægt að kanna meint verðsamráð

Verðsamráð er ljótur glæpur gagnvart almenningi. Ég tala nú ekki um þegar menn eiga með sér verðsamráð um um nauðsynjavörur eins og matvöru. Það er alvarlegur glæpur gangvart neytendum ef þær ásakanir sem fram hafa komið á undanförnum dögum eiga við rök að styðjast.

En þessar ásakanir eru mjög alvarlegar og þess vegna ber stjórnvöldum sem eiga að gæta almannahagsmuna að kanna þær til hlítar. Það hlýtur að vera skylda samkeppniseftirlitsins að gera það. Auðvitað er það óþolandi, ef þessar ásakanir eru á rökum reistar, að viðskiptablokkirnar séu að spila með almenning í skjóli þess að samkeppniseftirlitið á Íslandi er vanbúið til þess að taka á þessum málum.

Viðskiptaráðherra hefur sagt að nú sé tími til kominn að koma neytendum úr aftursætinu í framsætið á Íslandi. Því er ég hjartanlega sammála og ráðherrann hefur sett fram raunhæfar tillögur sem miða að því að bæta stöðu neytenda.

Meint verðsamráð matvöruverslana er mikilvægt að uppræta ef það á að takast að koma neytendum á Íslandi í framsætið eins og talað hefur verið um. Til þess að það geti gerst þarf samkeppniseftirlitið að virka sem skyldi og þá er nauðsynlegt að það verði stóreflt sem fyrst.


Bæjarstjórn í dag

Hann var góður bæjarstjórnarfundurinn í dag. Gagnlegar umræður sköpuðust um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Mikill samhljómur var í málflutningi bæjarfulltrúa. Lögð var áhersla á það að Hornfirðingar hafa sýnt mikið frumkvæði í allri umræðu um væntanlegan þjóðgarð. Enginn vafi er á því í mínum huga að höfuðstöðvar þjóðgarðsins eiga heima hér í ríki Vatnajökuls. Um þetta mál er full eining í bæjarstjórninni og höfum við í raun talað fyrir þessu frá því að hugmyndir um stofnun þjóðgarðsins komust fyrst á kreik.

Einnig sköpuðust ágætar umræður um staðsetningu knattspyrnuhússins sem við hyggjumst byggja á næstunni. Ljóst er að skiptar skoðanir eru um staðsetninguna á meðal fólks. Það virðist líka vera á reiki um hvers konar hús er að ræða. Alveg frá því að ég veitti höfðinglegri gjöf Skinneyjar - Þinganess viðtöku fyrir tæpu ári hef ég staðið í þeirri trú að við værum að ráðast í byggingu knattspyrnuhúss og nýting hússins ætti að miðast við það. Enda stendur í bréfinu frá fyrirtækinu, að peningagjöf þeira sé ætlað að styðja við byggingu knattspyrnuhúss í líkingu við það hús sem Fimleikafélag Hafnarfjarðar reisti í Kaplakrika. Ekkert hefur komið fram í umræðunni sem ætti að breyta þessum forsendum að mínu mati.

Að sjálfsögðu er það skiljanlegt að fólk velti fyrir möguleikum til þess að nýta húsið. En það er ennþá mín skoðun að við séum að ráðast í byggingu knattspyrnuhúss. Ef fólk getur nýtt sér knattspyrnuhúsið í eitthvað annað þegar það er risið þá er það að mínu mati bara góður bónus fyrir húsið. Ég held að það verði að koma skýrt fram að við erum ekki að tala um fjölnota íþróttahús heldur er hér fyrst og fremst um að ræða það sem margir hafa kallað knattskjól. Þessu talaði ég fyrir á fundinum í dag. Einnig tók ég fram að afstaða mín hefði ekkert breyst frá því bæjarráð tók undir bókun nefndar um íþróttamannvirki um staðsetningu hússins.

Hins vegar er eðlilegt þegar fram kemur gagnrýni, eins og foreldraráð grunnskólans hefur komið á framfæri, að betri umræða fari fram um málið. Þess vegna hefur verið óskað eftir því við verkfræðistofuna ASK að útbúa fullkomnar myndir af húsinu með hinar ýmsu staðsetningar í huga þannig að bæjarbúar geti séð hvers konar hús er um að ræða.

Að lokum fór síðan fram ágæt umræða um heilbrigðis - og öldrunarmál í sveitarfélaginu. Minnihlutinn í bæjarstjórn er þeirrar skoðunar að það þurfi að setja á fót sérstakan starfshóp, skipaðan oddvitum þeirra framboða sem sæti eiga í bæjarstjórn, til þess að fjalla um þjónustusamninginn við heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytið um rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands. Á þetta hefur meirihlutinn ekki fallist enn sem komið er enda væri stofnun slíks starfshóps ótímabær á þessu stigi. Ráðuneytið á einfaldlega eftir að vinna það mikið i sínum málum áður hægt verður að segja fyrir víst um hvers konar samning er að ræða.

Þangað til hef ég haldið því fram að bæjarráð haldi utan um samningsgerðina með bæjarstjóra. Ég ber fullt traust til þeirra einstaklinga sem sitja í bæjarráði til þess að fjalla um þessi mál hvort sem þeir eru oddvitar sinna framboða eða ekki.  


Flottur dagur

Má til með óska flokksbróður mínum, Degi B. Eggertssyni, til hamingju með það að vera orðinn borgarstjóri eftir alveg hreint ótrúlega atburðarás síðustu daga.

Það er búið að vera hreint guðdómlegt að fylgjast með afglöpum Íhaldsins í borginni í kjölfar REI - málsins. Innanbúðarátök, umboðslaus oddviti, leynifundir með formanni og varaformanni og minnisleysi af verstu sort hafa hrjáð liðið undanfarna daga.

Makalaust hefur verið að fylgjast með liðinu úthúða Binga núna í ljósi þess að þau sáu ekki sólina fyrir honum eftir sveitarstjórnarkosningar fyrir um 15 mánuðum. Eru meira að segja farin að nota það gegn honum hversu mikil völd hann hafði í samstarfinu miðað við fylgi. Hverjir sáu til þess að það gæti gerst? Ekki gat Bingi komið þessu svona fyrir einn síns liðs. Nei, það þurfti Íhaldið til þess að gera hann svona valdamikinn þrátt fyrir atkvæðaleysið. Þýðir lítið að nota það gegn honum núna.

Með ótrúlegu klúðri á klúðri ofan hafa Sjálfstæðismenn glutrað völdunum í borginni. Nú standa spjótin öll á Vilhjálmi, fyrrverandi borgarstjóra og ekki síður á sexmenningunum sem fóru svo rækilega á bakvið hann að ekki var nokkur leið til þess að hugsa sér að borgarstjórinn myndi eiga sjö dagana sæla eftir slíkar aðfarir. Ég held að Bingi hafi metið þetta hárrétt. Það var ekkert annað að gera í stöðunni. Þessu liði er ekki treystandi.

En sem betur fer var ánægjulegur endir á þessu öllu saman þegar Dagur tók við lyklavöldunum í dag af Vilhjálmi. Ég er sannfærður um það að Dagur á eftir að reynast farsæll borgarstjóri fyrir Reykjavík.


Áhrif kvótaskerðingar að koma fram

Í viðtalið við svæðisútvarpið á Austurlandi lýsti Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri á Hornafirði yfir áhyggjum af stöðu stöðu þeirra sjómanna, sem sagt hefur verið upp störfum hjá Skinney - Þinganes og fjölskyldum þeirra. Ég tek heilshugar undir þessar áhyggjur Hjalta en það var alltaf áhyggjuefni að eitthvað í líkingu við þetta myndi gerast í kjölfar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um niðurskurð á þorskkvóta næsta fiskveiðiárs. Það virðist núna vera að koma á daginn.

Við höfðum alltaf miklar áhyggjur af því að í mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar myndu ekki skila sér nægjanlega til sjómanna og fiskverkafólks. Þegar svona gerist hugsar maður fyrst og fremst til þeirra einstaklinga sem sagt er upp störfum og vonar að úr þeirra málum rætist sem fyrst.

En ég tek undir með Hjalta þegar hann segir að nú séu áhrif kvótaskerðingarinnar að koma fram hér á Hornafirði því það var alla tíð ljóst að þessi aflasamdráttur myndi hafa mikil áhrif á atvinnulíf Hornafirðinga.


Til hamingju með nýjan meirihluta í borgarstjórn

Það er búið að vera vrkilega gaman að fylgjast með hamaganginum í borgarstjórn undanfarna daga. Kostulegri frammistöu hefur maður ekki séð í langan tíma eins og frammistöðu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í þessu svokallaða REI máli.

Dásamlegt að fólk geti svona allt í einu fundið sína grundvallarafstöðu í ákveðnum málum þó unnið hafi verið á þeim nótum sem Vilhjálmur og félagar voru að leggja til í lengri tíma. Hin nýfundna grundvallarafstaða sjálfstæðismanna gerði borgarstjóranum svo sannarlega erfitt fyrir. Í raun hefur hann átt svo erftitt að hann er búinn að kúvenda í sinni afstöðu og er líka kominn með grundvallarskoðanir, svona eftir á að hyggja.

Til að kóróna svo allt saman fóru sexmenningarnir á fund formannsins og varaformannsins og klöguðu borgarstjórann. Þar með var með öllu ljóst að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins var með öllu ósamstarfshæfur.

Þess vegna segi ég: til hamingju með nýjan borgarstjórnarmeirihluta.


Ekki ríkisstjórn kyrrstöðu

Þingið var sett í dag. Þó fyrr hefði verið gæti e.t.v. einhver sagt. Ég á ekki von því að þetta verði mikill átakvetur ef hægt er miða má við frammstöðu stjórnarandstöðunnar. VG á erftitt með að fóta sig eftir hvern afleik formannsins á fætur öðrum eftir kosningarnar í vor og Framsókn virðist alls ekki búin að jafna sig eftir afhroðið í vor. Hugmyndir þessara tveggja flokka um að vera samstíga í stjórnarandstöðunni á þingi eru ekki beint trúverðugar miðað við þann djúpa ágreining sem ríkir á milli flokkanna tveggja. Sá ágreiningur og trúnaðarbrestur kom berlega í ljós eftir kosningarnar í vor.

Ég er sammála forsætisráðherra þegar hann segir að ríkisstjórnin, sem mynduð var í vor, verður ekki ríkisstjórn kyrrstöðu. Hún mun leitast við að koma málum á dagskrá og á hreyfingu. Við sjáum þess nú þega merki í sambandi við umræðu um Evrópusambands - og gjaldmiðilsmál. Nú loksins er fólk úr Sjálfstæðisflokknum farið að ræða þessi mál opinskátt. Einnig hefur núna skapast þannig andrúmsloft að þingmenn stjórnarflokkanna ræða óhikað ágreining sín á milli. Einnig virðist það vera orðið nokkuð ríkjandi skoðun hjá stjórnarflokkunum að peningamálastefna Seðlabankans virkar ekki nógu vel og bitnar helst á þeim sem síst skyldi, þ.e. almenningi og minni fyrirtækjum sem ekki hafa aðgang að erlendu fjármagni.

Miðað við þessi fyrstu spor sem ég hef hér lýst þá er ég nokkuð vongóður um að þetta verði ekki ríkisstjórn kyrrstöðu eins og forsætisráðherra segir.

Því er hins vegar ekki að leyna að hennar bíða mörg mjög krefjandi og erfið verkefni. Nægir þar að nefna málamiðlanir í umhverfis - og auðlindamálum. Það er málaflokkur sem eflaust á eftir að reynast þessari ríkisstjórn erfiður en ég hef fulla trú á því að undir forystur Þórunnar og Össurar takist ríkisstjórninni það.

Hennar bíða líka gríðarlega erfið og krefjandi verkefni á sviði efnahagsmála. Það hlýtur að verða eitt af höfuðmarkmiðum þessarar ríkisstjórnar að koma á stöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar, þ.e. að koma böndum á þensluna og verðbólguna. Eins og staðan er í dag ganga þessi verkefni alls ekki nógu vel hjá Seðlabankanum og okurvaxtapíndur íslenskur almenningur á heimtingu á því að frjálslynd umbótastjórn beiti sér af krafti í þessum málum.


Ósamstíga stjórnarandstaða

Skv. þessari frétt á ruv.is þá ætlar stjórnarandstaðn sér að vera samstíga á komandi þingi. Það er út af fyrir sig ánægjuefni að menn ætli sér að vinna saman þvert á flokkslínur.

Hins vegar á ég eftir að sjá það að VG og Framsókn eigi nokkra samleið í nokkru einasta máli. Eftir kosningarnar síðastliðið vor kom það berlega í ljós að trúnaðarbresturinn á milli þessara tveggja flokka var svo mikill og alvarlegur að ekki var nokkur möguleiki á því að mynda vinstri stjórn. Ég hef því ekki mikla trú á því að samstarfið hjá stjórnarandstöðunni eigi eftir að verða gott.

Í raun hef ég mestar áhyggjur af því að stjórnarandstaðan eigi eftir að verða máttlaus á þessu kjörtímabili. VG fólk mun einbeita sér að því eins og venjulega að níða skóinn af Samfylkingarfólki. Steingrímur Joð beinlínis hlakkar til þess að gagnrýna Samfylkinguna því hann hefur haldið aftur af sér undanfarin ár í gagnrýni á hana. Þetta upplýsti hann í blaðaviðtali fyrir skömmu síðan.  

Framsókn er ennþá í sárum eftir háðulega útreið úr síðustu kosningum og mér sýnist á öllu að það eigi eftir að reynast Framsóknarflokknum erfitt að finna fjölina sína á nýjan leik.

Frjálslyndir voru fyrir löngu búnir að mála sig út í horn með málflutningi sínum um útlendinga og ég á nokkra von á því að það muni breytast á þessu kjörtímabili.


Valhallarræða Geirs

Ræða Geirs H. Haarde í Valhöll í gær olli mér að vissu leyti töluverðum vonbrigðum. Því get ég ekki leynt. Davíðsarmurinni í flokknum virðist enn hafa töluverð áhrif og völd í flokknum. Fundurinn virðist gagngert hafa verið haldinn til þess að róa ESB andstæðinga í röðum Sjálfstæðisflokksins. Geir sagði t.a.m. að Samfylkingin hefði það nánast á sinni stefnuskrá að ganga í Evrópubandalagið "no matter what" eins og hann orðaði það á höfuðtungu útrásarinnar. Með því var hann nánast að ýja að því að Samfylkingin vildi ganga í Evrópusambandið jafnvel þó hagsmunum okkar væri ekki betur borgið þar. Það þótti mér algerlega óþarft hjá honum.

Að undanförnu hefur það hins vegar komið í ljós að það eru miklu fleiri tilbúnir að fylgja Samfylkingunni í umræðu um Evrópu - og Evrumál, t.a.m. fólk úr atvinnu - og viðskiptalífinu. Það gerðu menn ekki af jafn miklum krafti þegar Halldór Ásgrímsson reyndi með takmörkuðum árangri að koma Evrópumálunum á dagskrá. Hann hafði heldur ekki Framsóknarflokkinn á bak við sig í þeirri umræðu.

En nú er Samfylkingin komin í ríkisstjórn og þá verða afturgöngur úr fortíðinni í Sjálfstæðisflokknum að gera sér grein fyrir því að við það eru Evrópumálin sannarlega á dagskrá. Fólk úr atvinnulífinu virðist líka átta sig á því að málflutningur okkar í þessum málum er ekki eitthvað gaspur út í loftið heldur er hér um einbeittan vilja að ræða. Þó er það nú sennilega rétt að hjá forsætisráðherra að ekki verður sótt um aðild á þessu kjörtímabili.

Það er þó ýmislegt sem eykur manni bjartsýni um það að raunverulegur vilji sé hjá Sjálfstæðisflokknum að fara að huga að þessum málum. Nægir þar að nefna málflutlutning Guðfinnu Bjarnadóttur, alþingiskonu Sjálfstæðisflokksins, í grein, sem birtist í Blaðinu 25. september, þar sem því er lýst yfir að Evran sé á dagskrá og að mikilvægt sé að huga að óstöðugu gengi krónunnar sem og háum vöxtum.


Starfslokasamningur við Davíð?

Miðað við hversu margir félagar í Sjálfstæðisflokknum eru að snúast á sveif með Samfylkingunni í umræðunni um peningamálstefnu Seðlabankans þá kæmi manni ekki á óvart þó fljótlega þyrfti að ganga til samninga við Davíð Oddsson um starfslok. 

Mér finnst full ástæða til þess að samningaleiðin sé farin þar sem Davíð hefur verið ósérhlífinn í störfum sínum fyrir íslenskan almenning.

Að öllu gríni slepptu þá virðist fokið í flest skjól fyrir Davíð kallinn. Meira að segja fyrrverandi aðstoðarmaður hans, Illugi Gunnarsson, er farinn að hafa efasemdir um stefnu fyrrverandi vinnuveitanda síns.

Það er loksins núna sem Sjálfstæðismenn eru farnir að taka undir þann málflutning sem Einar Oddur Kristjánsson heitinn viðhafði alla tíð um stefnu Seðlabankans. 

Það er mín von að þessi opinskáa umræða um vaxtastefnu bankans og tilgangsleysi hennar leiði til þess að menn fari fordómalaust að skoða og velta fyrir sér kostum þess að taka hér upp Evru.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra er aldeilis búinn að koma þeim málum á dagskrá að undanförnu. Ýmsum finnst hann hafa gengið fullharkalega fram í þeim málum. Það get ég ekki tekið undir. Björgvin hefur alla tíð talað fyrir upptöku Evru og inngöngu í ESB. Varla hafa menn búist við því að þær skoðanir hans hyrfu við það að verða ráðherra.

Kannski er það veruleiki sem stjórnmálamenn í öðrum flokkum lifa við, þ.e. að þurfa að skipta um skoðanir verði þeir ráðherrar. 


Ríkisstjórnarsamstarfið

Heilt yfir finnst mér ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks fara vel af stað. Þó menn greini á um einstaka atriðið þá virðist andrúmsloftið vera þannig að mönnum leyfist að takast á með málefnalegum hætti. Það var plagsiður í síðustu ríkisstjórn að forðast alla málefnalega umræðu eins og heitan eldinn. Skoðanaskipti af því tagi sem nú virðast vera leyfileg á milli ríkisstjórnaflokkana eru lífsnauðsynleg fyrir lýðræðið. 

Úr því að Vinstri Græn spiluðu svona illa úr sínum spilum að loknum kosningum í vor var ekki um neitt annað að ræða fyrir Samfylkinguna en að stíga dansinn með Sjálfstæðisflokknum þegar tækifærið gafst.

En um leið við gerðum það var nauðsynlegt að halda því til að haga að þó við förum í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum þá verðum við ekki útibú úr Sjálfstæðisflokknum í samstarfinu. Við erum jafnaðarmannaflokkur Íslands og þess verða að sjást skýr merki í okkar samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Stoðunum var kippt undan tilveru Framsóknarflokksins vegna þess að fólk hætti að gera greinarmun á Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum í síðustu ríkisstjórn.

Samstarfið við Íhaldið gekk frá Framsóknarflokknum en Framsóknarfólk getur engu nema sjálfu sér um kennt. Flokkurinn hætti að skilgreina sig frá samstarfsflokknum og fólk fór að líta á flokkana sem einn. Það var banabiti Framsóknar í síðustu kosningum.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband