Leita í fréttum mbl.is

Heilbrigðisráðherra í heimsókn

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, heimsótti Heilbrigðisstofnun Suðausturlands í dag. Hún heilsaði upp á starfsmenn og kynnti sér starfsemina. Einnig notaði hún tækifærið til þess að undirrita samning við Heilbrigðisstofnunina um aukna geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga í Austur - Skaftafellssýslu. Samningurinn færir stofnuninni tvær milljónir á næstu tveimur árum til þess að standa straum af verkefninu. Sannarlega þarft verkefni þar á ferðinni.

Ráðherra notaði heimsóknina líka til þess að skoða og vígja formlega ný röntgentæki sem búið er að taka í notkun á heilsugæslunni. Tækin eru að langmestu leyti kostuð af einstkalingum og fyrirtækjum hér í samfélaginu. Óhætt er að segja að einstaklingar og fyrirtæki hafi brugðist vel við því þegar kallið kom um að endurnýja tækin því um verðmæt tæki er að ræða. Í máli starfsmanna kom fram að um algjöra byltingu væri að ræða fyrir starfsemina á heilsugæslunni.

Ýtt á eftir þjónustusamningi

Heilbrigðis - og öldrunarráð Hornafjarðar notaði einnig tækifærið til þess að ræða við ráðherra um endurnýjun á þjónustusamningi á milli ráðuneytisins og sveitarfélagsins um fyrirkomulag heilbrigðis - og öldrunarþjónustu í Austur - Skaftafellssýslu. Samningur við ráðuneytið rann út um áramót. Við lögðum á það mikla áherslu að sveitarfélagið vil halda áfram að vinna að verkefninu. Í raun teljum við engin rök fyrir því að ríkið aftur við rekstri heilbrigðis - og öldrunarþjónustunnar í sýslunni. Þvert á móti teljum við að hér hafi verið unnið gott og metnaðarfullt starf á síðustu árum. Á síðustu árum hefur verið unnið markvisst að því að framfylgja þeirri stefnu í öldrunarþjónustu sem Siv Friðleifsdóttir hefur markað sem heilbrigðisráðherra, þ.e. að gera öldruðum kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði.

Við höfum lagt á það ríka áherslu að gera öldruðum kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði og það höfum við gert með því að efla og styrkja með markvissum hætti heimahjúkrun og hvíldarinnlagnir. Með því móti hefur okkur tekist að fækka umtalsvert í langlegu. Þetta er árangur sem við teljum nær öruggt að hefði ekki náðst nema vegna þess að sveitarfélagið hefur stýrt verkefninu og hefur getað lagað þjónustuna að staðbundnum aðstæðum. Þetta er kjarni málsins og þess vegna á ráðuneytið að endurnýja samninginn við okkur.

Þriggja lækna hérað og heimahjúkrun

Í viðræðum okkar við ráðuneytið leggjum við á það ríka áherslu að áfram verði litið á Austur-Skaftafellssýslu sem þriggja lækna hérað. Svæðið er mjög einangrað landfræðilega og læknisfræðilega. Langt er í næstu heilbrigðisþjónustu og spítala. Sjúkraflug á um mjög langan veg að fara. Einnig er vaktaálag mikið á læknum nú þegar og ef einungis væri um tvær læknastöður að ræða myndi það versna enn frekar. Heilbrigðis - og öldrunarráð telur einfaldlega að þrjár læknastöður séu grundvöllur mannsæmandi heilbrigðisþjónustu í Sveitarfélaginu Hornafirði. E.t.v. er nauðsynlegt að taka það fram fyrir þá sem ekki vita að sveitarfélagið nær yfir alla Austur-Skaftafellssýlu.

Einnig leggjum við mikla áherslu á að tekið verði sérstakt tillit til stóraukinnar heimahjúkrunar á svæðinu. En við erum ekki hætt á þeirri vegferð. Við viljum halda áfram að auka þátt heimahjúkrunar í starfsemi Heilbrigðisstofnunarinnar og til þess þurfum við aukið fjármagn. Þannig getum við haldið áfram á þeirri leið að vinna eftir stefnumörkun núverandi heilbrigðisráðherra í öldrunarþjónustu, þ.e. að gera öldruðum kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband