Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Myndir af gömlum kommum - heimsviðburður?

Ritstjóri Morgunblaðsins hlýtur að vera þakklátur fyrir hvert það tilefni eða ástæðu, sem pólitískir andstæðingar hans veita honum, til þess að stinga niður penna. Við ráðningu hans var enda skýrt tekið fram að hann væri fyrst og fremst fenginn til þess að koma skoðunum eigenda blaðsins á framfæri en hann ætti ekki að fjalla um eða taka afstöðu til frétta sem fjölluðu um Hrunið.

Ástæðan fyrir því var fjölþætt aðkoma ritstjórans að hruni íslensks efnahagslífs. Hann er fyrrverandi forsætisráðherra, utanríkisráðherra og  fyrrverandi formaður stjórnmálaflokks, sem með stefnu sinni lagði grunninn að hruninu. Hann var forsætisráðherra þegar viðskiptabankarnir voru seldir til þeirra manna sem tókst að kafsigla þá á örfáum árum og tóku þjóðarskútuna með sér í fallinu. Síðar kallaði ritstjórinn þessa sömu menn, sem hann einu sinni lagði sig fram um að eignuðust banakana, óreiðumenn. Flestum þykir eflaust nóg um þessa upptalningu en afrekaskráin er lengri eins og allir vita.

Ritstjórinn er líka fyrrverandi Seðlabankastjóri en sem slíkur var það hans hlutverk að verja fjármálastöðugleikann en á hans vakt fauk sá stöðugleiki út um gluggann og hefur varla spurst til hans síðan. Á þessari sömu vakt varð Seðlabanki Íslands líka tæknilega gjaldþrota - en það er einsdæmi. Í ljósi þess að ritstjórinn er vanhæfur til þess að fjalla um stærsta fréttamál samtímans þá var eðlilega spurt; hvað á maðurinn eiginlega að gera?

Ritstjóranum hefur þó stundum tekist að finna sér ný og frumleg umfjöllunarefni - svona þegar hann hefur þurft að hvíla sig á að verja einkahagsmuni yfirboðara sinna, sem eru m.a. óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi (áfram gjafakvóti án breytinga) og andstaðan við ESB umsókn. Og hann er hugmyndaríkur.

Litlar myndir af syngjandi ráðherrum geta verið uppspretta innblásinna og djúphugsaðra Staksteina enda telur ritstjórinn um heimssögulegan viðburð að ræða. Í víðsýnum hugarheimi ritstjórans getur það hvegi gerst nema í Norður - Kóreu og á Kúbu að vinstri sinnaðir ráðherrar taki undir af krafti þegar Nallinn - baráttasöngur verkalýðsins - er sunginn á samkomu á vegum verkalýðshreyfingarinnar. Gömlu kommarnir virðast þannig hafa bjargað deginum fyrir ritstjórann.

Í ljósi þess hve svigrúm ritstjórans til þess að fjalla um helstu álitamál samfélagsins er takmarkað, vegna margháttaðrar aðkomu hans að hruni íslensks efnahagslífs, þá er rétt að fagna viðleitni gömlu kommanna til að sjá hinum nýja og óreynda ritstjóra fyrir verkefnum.


Sérhagsmunagæslan samræmir leiftursókn gegn félagsmálaráðherra

Sjálfur hef ég hvorki lesið né heyrt ræða Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra, á ársfundi ASÍ fyrir skemmstu og er því varla dómbær á innihald hennar. Þó hef ég heyrt og lesið glefsur úr henni, sem ég kunni ágætlega að meta. En af samhæfðum viðbrögðum forkólfa álrisanna, LÍÚ, samtak atvinnulífsins og talsmanna þeirra á þingi, sjálfstæðis -og framsóknarþingmanna, má leiða líkum að því að þetta hafi verið býsna góð og innihaldsrík ræða hjá félagsmálaráðherra.

Hræðslan við að nú sé kominn ráðherra sem tekur almannahag fram yfir sérhagsmuni leynir sér ekki. Leiftursókn afla í þágu sérhagmuna í samvinnu við framlengingu þessara sömu sérhagsmunahópa á þingi er hafin gegn félagsmálaráðherra. Með samstilltu og einbeittu átaki hefur öllum þessum aðilum tekist að samræma málflutning sinn með aðdáunarverðum hætti.

Miðað við þau viðbrögð sem ræða félagsmálaráðherra framkallar hjá varðhundum sérhagsmunanna í íslensku samfélagi þá tel ég hann vel til þess að fallinn að vera framsætinu í endurreisnarstarfinu. Sú endurreisn á leiða til þeirrar grundvallarbreytingar á íslensku samfélagi að markaðurinn verði þjónn samfélagsins alls - og þess krafist að hann aðlagi sig að þörfum samfélagsins en ekki öfugt.

Á ríkisstjórnarárum Sjálfstæðis - og Framsóknarflokks var þessum hlutverkum snúið við þannig að forkólfum atvinnulífsins og markaðarins tókst að gera samfélagið og stofnanir þess - Alþingi, ríkisstjórn og stjórnkerfi - að dyggum þjónum sínum. Við urðum ginningarfífl blindrar og takmarkalausrar ofsatrúar á markaðinn og lausnir hans. Við megum ekki láta það henda okkur aftur.

En það er einmitt það sem þeir vilja, sem hæst láta núna í gagnrýni sinni á félagsmálaráðherra. Sérhagsmunahóparninr vilja halda áfram að ráða en óttast að félagsmálaráðherra muni láta illa að stjórn.  

Viðbót:

Núna er ég búinn að lesa ræðuna og hún er eins og ég bjóst við, býsna góð og innihaldsrík - og ekki nema von að einhverjir ókyrrist.

Ræðuna má nálgast hér: http://www.herdubreid.is/?p=1055#more-1055


Áhrif kreppunnar á opinbera þjónustu á landsbyggðinni

Í þeirri niðurskurðarhrinu, sem bíður stjórnvalda í kjölfar hins ársgamla efnahagshruns, á það að vera eitt af leiðarljósum stjórnvalda að tryggja aðgang landsmanna að opinberri þjónustu óháð búsetu. Mikill uggur er í mörgum á landsbyggðinni - og þá ekki síst sveitarstjórnarmönnum - að höggvið verði of nærri grunngerðinni í samfélaginu í niðurskurðinum. Finnst mörgum það ósanngjarnt þar sem mörg svæði á landsbyggðinni tóku lítinn sem engan þátt í hinu bólukennda hagkerfi sem síðan keyrði efnahagslífið okkar í þrot. Hjá okkur er því lítið til að klípa af enda hafði lítil fita safnast á landsbyggðarkroppinn í góðærinu.

Hins vegar getur mikill niðurskurður á þjónustu á viðkvæmum svæðum haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélög, sem alltaf eru í baráttu fyrir tilverurétti sínum. Þetta er eitthvað sem ríkisstjórn, fjárlaganefnd og Alþingi ættu að hafa í huga áður en gengið verður endanlega frá fjárlögum næsta árs.

Á sama tíma gera allir sér grein fyrir því að tekjugrundvöllur ríkissjóðs hefur stórskaðast og það mun taka einhvern tíma til þess að ná jafnvægi í tekjum og gjöldum ríkissjóðs. Til þess að það geti gerst á sem skemmstum tíma er mikilvægt að ríkisstjórnin og löggjafinn haldi vel áætlun stjórnvalda og AGS um aðlögun í ríkisrekstri.

Allir skilja því að ekki er mikið svigrúm til að hefja mörg ný verkefni á vegum hins opinbera - bæði hvað varðar rekstur og framkvæmdir - eins og árar hjá okkur núna. Af þeim sökum er enn mikilvægara en ella að standa vörð um þá opinberu þjónustu sem nú þegar er til staðar á landsbyggðinni.


Hugarórar um leyniskjöl

Fyrir réttu ári síðan vaknaði fyrrverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands snemma morguns með fullvissu fyrir því að Rússar hefðu ákveðið að veita Íslendingum 4 milljarða Evra lán. Engu var líkara en formanninn hefði dreymt þessa himnasendingu frá Rússum nóttina áður. Síðar sama dag kom í ljós að formaðurinn hafði misskilið sendirherra Rússa. Lánið frá Rússum er enn ókomið.

Nú ber svo við að sami einstaklingur er nú sestur í stól ritstjóra Morgunblaðsins - og fer mikinn um ýmis leyniskjöl og leyndarhyggju ríkisstjórnarinnar. Þetta er sami maður og taldi eðlilegt að lýsa yfir stuðningi við ólögmætt árásarstríð án þess að láta sér einu sinni detta í hug að bera stuðningsyfirlýsinguna undir þingið. Upphrópanir fullar vandlætingar um skort á opinni og lýðræðislegri umræðu frá manni með slíka pólitíska fortíð geta varla talist innistæðumiklar- og eru í raun frekar hlægilegar.

Trúin á tilurð leyniskjals úr fórum norska fjármálaráðuneytisins, þar sem fram kemur að ein af forsendum fjárhagslegrar aðkomu Noregs að endurreisn Íslands sé að Icesave verði að klárast, virðist eingöngu vera til í hugarórum ritstjórans. Þessi staðreynd hefur lengi legið fyrir og var m.a. undistrikuð í sumar þegar ríkisstjórnin lagði sig alla fram um að gera öll þau skjöl sem tengjast Icesave aðgengileg fyrir almenning.

Fyrir áhugasama þá er skjalið hér: http://www.island.is/media/frettir/55.pdf

Annað hvort er hér um byrjendamistök að ræða hjá ritstjóranum eða vísbendingu um að hann muni leita allra leiða til þess að rugla og afvegaleiða umræðuna um þau mál sem honum finnast óþægileg - og til þess séu öll meðul leyfileg.

 


Stoltenberg - stærsti óvinur Íslands?

Ef núverandi ríkisstjórn skortir þrek og kraft til þess að ljúka IceSave-málinu, sem er skilgetið afkvæmi Sjálfstæðis - og Framsóknarflokks vegna einkavinavæðingarstefnunnar sem byggði á helmingaskiptareglu hrunflokkanna, þá á hún ekkert erindi lengur í stjórnarráðið. Ástæðan fyrir því er sú að ef menn halda áfram að heykjast á því að ljúka þessu ömurlega máli þá er öll sú efnahagsáætlun sem stjórnvöld hafa lagt upp með í samvinnu við AGS í fulkominni upplausn.

Atvinnulífið verður áfram í frosti, fyrirtækin eiga erfitt með að fjármagna sig, áfram verður erfitt að fá erlent fjármagn inn í landið, forsendur fyrir vaxtalækkunum skapast ekki, endurskiplagning bankakerfisins verður áfram í óvissu og allri endurreisninni er teflt í tvísýnu. Þetta er því miður sú mynd sem blasir við okkur í dag en getum ekki tekið á vegna ótta nokkurra þingmanna við það sem kann að gerast eftir sjö ár. Og óábyrgir stjórnarandstöðuþingmenn nýta sér svo þennan ótta og hræra eins og þeir geta í ákvörðunarfælnum þingmönnum VG, sem sprikla eins og strengjabrúður í höndum þeirra.  Mogginn bætir síðan um betur og leggur til að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur verji minnihlutastjórn Vinstri Grænna falli. Ef Ísland væri málverk þá væri það eftir Dali og ef það væri skáldsaga þá væri höfundurinn Kafka.  

Kannski er ekkert skrýtið að margir sjái engan tilgang í því að klára ICE SAVE málið, sem er nú bara 15% af þeim skuldavanda sem við búum við í dag. Þeir hinir sömu hafa nefnilega komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé nein þörf fyrir samstarfinu við AGS. Meirihluti virðist vera á Alþingi um að hafna beri aðkomu AGS að efnahagsáætlun okkar. Menn virðast hafa fundið betri leið til þess að koma hjólunum aftur undir íslenskt efnahagslíf og eru komnir með alveg nýja áætlun - hefði maður haldið.

Sú áætlun á þó alveg eftir að líta dagsins ljós. Formaður Framsóknarflokksins telur sig þó vera kominn með vilyrði fyrir láni upp á tvö þúsund milljarða frá þingmanni Miðflokksins í Noregi, sem hlaut 6% atkvæða í síðustu kosningum þar í landi, en það á þó eftir að hljóta samþykki annarra flokka í ríkisstjórninni. Við vonum bara það besta.

Reyndar er ég farinn að hallast að því að eini tilgangurinn með ferð framsóknarkappanna til Noregs hafi verið að sýna fram á að norskir kratar beri fyrst og fremst ábyrgð á stöðu Íslands í dag. Ef ekki væri fyrir fjandans hrokann og belginginn í stærsta óvini óvini Íslands, honum Stoltenberg, þá væri Ísland fyrir löngu búið að fá bunch of money frá Norðmönnum án nokkurra skilyrða - þetta segir sig sjálft.

Afstaða Sjálfstæðismanna til AGS er athyglisverð í því ljósi að það voru þeir - í ríkisstjórn með Samfylkingunni - sem töldu aðkomu AGS nauðsynlega til að bjarga því litla sem eftir lifði af trúverðugleika og trausti á íslenskt efnahagslíf. Spurningin sem vaknar við þessa afstöðubreytingu Sjálfstæðismanna hlýtur því að vera sú, hvort íslenskt fjármála - og efnahagslíf hafi eflst svo á þessum tíma að aðkomu AGS sé ekki lengur þörf - að trúverðugleikinn hafi verið endurreistur og að íslenkst fjármálalíf njóti óskoraðs alþjóðlegs trausts á ný. Skýtur það nokkuð skökku við miðað við málflutning þeirra í garð ríkisstjórnarinnar og verka hennar til þess að koma atvinnulífinu í gang á nýjan leik.

Það er orðið mjög mikilvægt að ríkisstjórnin svari kallinu um það hvort hún eigi yfir höfuð erindi í stjórnarráðið. Enn er beðið niðurstöðu með það hvort VG sé í rauninni stjórntækur flokkur. Til þess að svo megi verða verður flokkurinn að leysa úr sínum innanbúðarátökum þannig að hægt sé að einhenda sér í verkin, sem liggja fyrir okkur í dag - t.d. að koma í veg fyrir frekara atvinnuleysi og koma skuldugum heimilum til hjálpar - í stað þess að vera á endalausum veruleikaflótta.

Vandræðagangurinn með ICE SAVE er ekkert nema flótti frá vandamálunum sem blasa við okkur í dag, sem frjálshyggjutilraunir Sjálfstæðisflokksins hafa skilið eftir í fanginu á okkur -vinstri flokkunum - og við verðum einfaldlega að axla þessa ábyrgð - og ljúka málinu.


Óvissan á fjármálaráðstefnu

Eftir að hafa setið fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í vikunni þá má segja að það eina sem menn vita alveg fyrir víst er það að mikil óvissa er í fjármálum hins opinbera - sveitarfélaganna og ríkisins. Annað sem menn voru líka nokkuð sammála um er að sársaukafullir tímar eru framundan í ríkisfjármálunum og hjá sveitarfélögunum.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon mættu á ráðstefnuna og fluttu góð erindi. Forsætisráðherra fór mjög vel yfir sviðið hjá sveitarfélögunum og lýsti mjög vel fyrir ráðstefnugestum framtíðarsýn sinni fyrir sveitarfélögin. Skýrt kom fram að hún telur að sveitarfélögin eiga taka mun meiri þátt í samneyslunni en þau gera í dag og nefndi sem dæmi rekstur heilsugæslu, framhaldsskóla og samgöngumála.

Steingrímur fór mjög vel yfir þann vandasama leiðangur sem ríkisstjórnin og Alþingi eiga fyrir höndum í gerð fjárlaga enda markmiðið að loka 87 milljarða gati í fjárlögunum - með skattahækkunum og niðurskurði. Sá niðurskurður mun auðvitað koma mjög niður á sveitarfélögunum víðs vegar um landið.

Eftir vikuna er einnig ljóst að mikil gerjun er í málefnum sveitarfélaganna. Samgönguráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélga skrifuðu í vikunni undir viljayfirlýsingu um frekari sameiningar sveitarfélaga. Við það tilefni nefndi samgönguráðherra þann möguleika sveitarfélögin í landinu yrðu 17 talsins að loknu þessu átaki. Formaður sambands íslenksra sveitarfélaga hefur talað fyrir þeirri skoðun að gömlu kjördæmin yrðu eitt sveitarfélag. Það myndi þýða að sveitarfélögin landinu yrðu sennilega rúmlega 10 talsins. Báðar hugmyndir fela í sér róttækar breytingar á því umhverfi sem sveitarfélögunum er búið í dag.

Við þetta er svo að bæta að Samband sveitarfélaga á Austurlandi, SSA, - sem Hornafjörður er ekki lengur aðili að - hefur ákveðið að setja af stað vinnu til þess að kanna kosti þess að öll sveitarfélögin á Austurlandi verði eitt sveitarfélag. Á Vestfjörðum er þessi vinna líka þegar hafin.

Hvað sem öðru líður þá er ljóst að miklar breytingar eru að verða á öllu skipulagi opinberrar þjónustu í landinu. Mikilvægt er að allir sem koma að opinberri þjónustu - bæði hjá sveitarfélögum og ríki - fylgist mjög vel með umræðunni næstu vikur og mánuði.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband