Leita í fréttum mbl.is

Myndir af gömlum kommum - heimsviðburður?

Ritstjóri Morgunblaðsins hlýtur að vera þakklátur fyrir hvert það tilefni eða ástæðu, sem pólitískir andstæðingar hans veita honum, til þess að stinga niður penna. Við ráðningu hans var enda skýrt tekið fram að hann væri fyrst og fremst fenginn til þess að koma skoðunum eigenda blaðsins á framfæri en hann ætti ekki að fjalla um eða taka afstöðu til frétta sem fjölluðu um Hrunið.

Ástæðan fyrir því var fjölþætt aðkoma ritstjórans að hruni íslensks efnahagslífs. Hann er fyrrverandi forsætisráðherra, utanríkisráðherra og  fyrrverandi formaður stjórnmálaflokks, sem með stefnu sinni lagði grunninn að hruninu. Hann var forsætisráðherra þegar viðskiptabankarnir voru seldir til þeirra manna sem tókst að kafsigla þá á örfáum árum og tóku þjóðarskútuna með sér í fallinu. Síðar kallaði ritstjórinn þessa sömu menn, sem hann einu sinni lagði sig fram um að eignuðust banakana, óreiðumenn. Flestum þykir eflaust nóg um þessa upptalningu en afrekaskráin er lengri eins og allir vita.

Ritstjórinn er líka fyrrverandi Seðlabankastjóri en sem slíkur var það hans hlutverk að verja fjármálastöðugleikann en á hans vakt fauk sá stöðugleiki út um gluggann og hefur varla spurst til hans síðan. Á þessari sömu vakt varð Seðlabanki Íslands líka tæknilega gjaldþrota - en það er einsdæmi. Í ljósi þess að ritstjórinn er vanhæfur til þess að fjalla um stærsta fréttamál samtímans þá var eðlilega spurt; hvað á maðurinn eiginlega að gera?

Ritstjóranum hefur þó stundum tekist að finna sér ný og frumleg umfjöllunarefni - svona þegar hann hefur þurft að hvíla sig á að verja einkahagsmuni yfirboðara sinna, sem eru m.a. óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi (áfram gjafakvóti án breytinga) og andstaðan við ESB umsókn. Og hann er hugmyndaríkur.

Litlar myndir af syngjandi ráðherrum geta verið uppspretta innblásinna og djúphugsaðra Staksteina enda telur ritstjórinn um heimssögulegan viðburð að ræða. Í víðsýnum hugarheimi ritstjórans getur það hvegi gerst nema í Norður - Kóreu og á Kúbu að vinstri sinnaðir ráðherrar taki undir af krafti þegar Nallinn - baráttasöngur verkalýðsins - er sunginn á samkomu á vegum verkalýðshreyfingarinnar. Gömlu kommarnir virðast þannig hafa bjargað deginum fyrir ritstjórann.

Í ljósi þess hve svigrúm ritstjórans til þess að fjalla um helstu álitamál samfélagsins er takmarkað, vegna margháttaðrar aðkomu hans að hruni íslensks efnahagslífs, þá er rétt að fagna viðleitni gömlu kommanna til að sjá hinum nýja og óreynda ritstjóra fyrir verkefnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ritstjórinn hefur ekki verið að níða niður sjávarútveginn á Hornafirði né annarsstaðar sem heldur nú lífinu í þjóðinni með öflun gjaldeyris.Það hafa aðrir gert sem betur ættu að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna.

Sigurgeir Jónsson, 24.10.2009 kl. 10:18

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Uppboð á aflaheimildum á vegum Ríkisins, þýðir flutning á nýtingarrétti til veiða til höfuðborgarsvæðisins, þar sem 2/3 íbúa landsins eru staðsett.Það er stefna Samfylkingarinnar, þótt flugfreyjan þegi um það eins og margt sem hún er að gera.En aðrir forystumenn Samfylkingarinnar fara ekki leynt með þetta ætlunarverk sitt þótt það þýði ekkert annað en eyðingu landsbyggðarinnar, þar á meðal Hornafjarðar.Ríkið hefur aldrei haft nýtingarréttinn og yfirtaka ríkisins er ekkert annað en þjóðnýting og yfirtaka á nýtingarrétti sem að 90% er staðsettur á landsbyggðinni, þar á meðal Hornafirði.Þeir sem settu landið á hausinn gerðu það í umboði Viðskiptaráðherrans sem þá var Samfylkingarmaðurinn Björgvin Sigurðsson.Hann fékk sitt umboð frá Samfylkingarkvinnunum Ingibjörgu Sólrúnu og Jóhönnu Sigurðardóttur.

Sigurgeir Jónsson, 24.10.2009 kl. 10:38

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Svo eru smjörbirgðirnar á þrotum og klípuaðferðin orðin hætt að bíta. Ekki hægt að siga hundunum eins skipulega og áður. Það eru bara einn og einn sem bofsar eins og þessi hér fyrir ofan. Við erum bara ekki lengur hrædd við smáhunda sem skrækja og væla, en gata svo ekkert þegar kemur að rökræðunni

Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.10.2009 kl. 17:24

4 identicon

Það er meira hvað "jafnaðarmenn" á Íslandi eru duglegir við að láta Davíð Oddsson fara í taugarnar á sér. Er ekki ósköp einföld lausn á þessu vandmáli ykkar gagnvart blessuðum manninum.. Hætta að lesa Moggan! Ykkur er það frjálst, enginn sem skuldbinfur ykkur til þess aðp lesa hann. Öðru máli gegnir hins vegar um fréttastofu Samfylkingarinnar í Efstaleitinu sem maður er skyldugur til að að láta fé sitt renna til.

Auk þess velti ég fyrir mér hver viðbrögðin yrðu ef að tekið yrði uppá þeirri nýbreytni að  við upphaf landsfundar Sjálfstæðisflokksisn myndu allir kyrja saman í kór "Es zittern die morschen Knochen". Það yrði sennilega álíka eðlilegt að verkalýðsforystan hefji sínar samkomur á söng sem spilaður var yfir hausamótunum á fórnarlömbum Kommúnismans... eða hvað?

Þórður Guðmundsson (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 21:59

5 Smámynd: Andspilling

Davíð Oddsson sér kommúnista í hverju horni. Segir frekar mikið til um hvernig litum hann sér tilveruna, er það ekki?

Andspilling, 25.10.2009 kl. 00:16

6 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Legg til að Sigurgeir og Þórður syngi Nallann svo sem eins og einu sinni í viku sér til sáluhjálpar

Ingimundur Bergmann, 25.10.2009 kl. 12:08

7 Smámynd: Árni Rúnar Þorvaldsson

Að minnsta kosti einu sinni í viku. Hér er góður linkur á textana við Nallann - ágætt líka fyrir þessa herramenn að lesa annað sem þessi ágæta síða hefur upp á að bjóða.

http://www.herdubreid.is/?p=1059#more-1059

http://www.herdubreid.is/?p=1067#more-1067

Árni Rúnar Þorvaldsson , 25.10.2009 kl. 19:44

8 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Í dag syngja engir Nallann nema lýðskrumarar Samfylkingarinnar.

Sigurgeir Jónsson, 29.10.2009 kl. 23:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband