Leita í fréttum mbl.is

Áhrif kreppunnar á opinbera þjónustu á landsbyggðinni

Í þeirri niðurskurðarhrinu, sem bíður stjórnvalda í kjölfar hins ársgamla efnahagshruns, á það að vera eitt af leiðarljósum stjórnvalda að tryggja aðgang landsmanna að opinberri þjónustu óháð búsetu. Mikill uggur er í mörgum á landsbyggðinni - og þá ekki síst sveitarstjórnarmönnum - að höggvið verði of nærri grunngerðinni í samfélaginu í niðurskurðinum. Finnst mörgum það ósanngjarnt þar sem mörg svæði á landsbyggðinni tóku lítinn sem engan þátt í hinu bólukennda hagkerfi sem síðan keyrði efnahagslífið okkar í þrot. Hjá okkur er því lítið til að klípa af enda hafði lítil fita safnast á landsbyggðarkroppinn í góðærinu.

Hins vegar getur mikill niðurskurður á þjónustu á viðkvæmum svæðum haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélög, sem alltaf eru í baráttu fyrir tilverurétti sínum. Þetta er eitthvað sem ríkisstjórn, fjárlaganefnd og Alþingi ættu að hafa í huga áður en gengið verður endanlega frá fjárlögum næsta árs.

Á sama tíma gera allir sér grein fyrir því að tekjugrundvöllur ríkissjóðs hefur stórskaðast og það mun taka einhvern tíma til þess að ná jafnvægi í tekjum og gjöldum ríkissjóðs. Til þess að það geti gerst á sem skemmstum tíma er mikilvægt að ríkisstjórnin og löggjafinn haldi vel áætlun stjórnvalda og AGS um aðlögun í ríkisrekstri.

Allir skilja því að ekki er mikið svigrúm til að hefja mörg ný verkefni á vegum hins opinbera - bæði hvað varðar rekstur og framkvæmdir - eins og árar hjá okkur núna. Af þeim sökum er enn mikilvægara en ella að standa vörð um þá opinberu þjónustu sem nú þegar er til staðar á landsbyggðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

Ef sveitarstjórnarmenn  - í öllum flokkum  - fara ekki að kynna sér  af ábyrgð - villuljós Hafrannsóknarstofnunar - þá verða varla miklar framfarir á landsbyggðinni..... - hvorki í opinberri þjónustu eða á öðrum sviðum.....  www.kristinnp.blog.is

Kristinn Pétursson, 14.10.2009 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband