Leita í fréttum mbl.is

Að ábyrgjast annarra manna skuldir

Öll þekkjum við fólk sem virðist alltaf vera tilbúið að leita allra leiða til þess að komast hjá því að borga. Slíku fólki vilja flestir sneiða hjá ef þess er nokkur kostur - hvað þá að eiga viðskipti við slíkt fólk. Fólk af þessu sauðahúsi beitir gjarnan fyrir sig smásmugulegum lagatæknilegum rökum sem eiga að styrkja málstað þess - skítt með siðferðislegar skyldur eða anda laganna, ef lagabókstafurinn er okkur í hag þá skulum við nota hann. Ef sjónarmið eins og þessi væru ríkjandi í ICE SAVE deilunni þá er hætt við því að eins færi fyrir Íslendingum og því fólki, sem alltaf vill komast hjá því að borga - sneitt yrði hjá okkur í alþjóðaviðskiptum. Hver vill eiga viðskipti við þjóð sem ekki stendur við skuldbindingar sínar og er alltaf tilbúin að hengja sig í lagabókstaf til þess að komast hjá því að borga - jafnvel þótt stjórnvöld hafi margítrekað haldið hinu gagnstæða fram.

Þungur dómur yfir einkavæðingunni

Það er fullkomlega skiljanlegt að íslenskir skattgreiðendur vilji ekki bera ábyrgð á skuldum óreiðumanna í útlöndum eins og bankastjórarnir og eigendur bankanna voru kallaðir í frægu Kastljósviðtali skömmu eftir fall bankanna. Harðari dóm yfir einkavæðingu bankanna í upphafi aldarinnar er varla hægt að hugsa sér. En þessi harði dómur vakti sérstaka athygli vegna þess að hann kom frá manninum, sem öðrum fremur var áhrifavaldur í sölu ríkisbankanna. Ekki seldi hann óreiðumönnum bankana? Ég kýs að líta svo á að þeim, sem stýrðu sölu ríkisbankanna, hafi ekki verið kunnugt að um óreiðumenn væri að ræða þegar bankarnir voru einkavæddir 2002 - þó svo annað hafi komið í ljós sbr. fyrrnefnt Kastljósviðtal. Hafi þeir aðilar, sem stýrðu einkavæðingarferlinu, hins vegar haft minnstu efasemdir um getu kaupendanna til þess að stýra bönkum gætu einhverjir freistast til að yfirfæra þau þungu orð og þá þungu dóma, sem nú heyrast í umæðunni, um fólkið sem er upptekið við að moka annarra manna flór, á lykilmennina sem stóðu í brúnni þegar viðskiptabankarnir voru einkavæddir. „Ákvörðunin" um að binda íslensku þjóðina á skuldaklafa og að skuldsetja ófæddar kynslóðir Íslendinga var ekki tekin með því samkomulagi sem núna er rætt á Alþingi heldur með stórgallaðri einkavinavæðingu ríkisbankanna fyrir nokkrum árum. Það hefur reynst okkur dýrkeypt að í einkavæðingu bankanna var lögð alveg sérstök áhersla á að eftir stæði a.m.k. einn banki í eigu manna í kallfæri við Flokkinn. Til þess að koma í veg að nokkur misskilningur myndi eiga sér stað í samskiptum bankastjórnarinnar og Flokksins var framkvæmdastjóri Flokksins gerður að varaformanni bankastjórnarinnar. Fjármálaráðherra hefur sterk rök fyrir því að þeir 11 milljarðar sem fengust við sölu Landsbankans séu að reynast þjóðarbúinu dýrustu milljarðarnir í sögu lýðveldisins - og til þess að kóróna vitleysuna fara Björgúlfsfeðgar nú fram á það við Nýja Kaupþing að um helmingur skuldar þeirra vegna kaupanna á Landsbankanum verði afskrifaður.

Ábyrgð íslenskra stjórnvalda

Eins ömurlegt og það er fyrir íslenska skattgreiðendur að greiða skuldir sem þeir stofnuðu ekki til verður ekki framhjá því litið að ábyrgð íslenskra stjórnvalda í þessu máli er mikil. Fyrst ber auðvitað að nefna að einkavæðing íslensku bankanna brást algjörlega. Íslenskir eftirlitsaðilar brugðust líka og leyfðu Landsbankanum m.a. að stofna útibú í Bretlandi og Hollandi, sem ætlað var að safna innlánum, fullir meðvitundar um að þá væri verið að skuldbinda Tryggingasjóð innistæðueigenda á Íslandi. Seðlabankinn afnam líka bindiskyldu bankanna og kynnti þar með enn frekar undir innlánasöfnun þeirra á erlendri grund.  Bresk og hollensk stjórnvöld þrýstu á að ICE SAVE reikningarnir yrðu færðir í dótturfélög og yrðu þar með á ábyrgð þarlendra tryggingasjóða en við þeim tilmælum var ekki brugðist. Einnig hafa íslensk stjórnvöld margítrekað að þau myndu styðja við Tryggingasjóðinn til þess að hann gæti staðið við lágmarksskuldbindingar sínar gagnvart innistæðueigendum samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins sem innleidd var í íslensk lög 1999. Þessi upptalning sýnir svo ekki verður um villst að íslensk stjórnvöld bera mikla ábyrgð í þessu máli.

Samkomulag forsenda alþjóðlegrar samvinnu

Veigamestu rökin fyrir því að hafna ekki því samkomulagi, sem nú liggur á borðinu, á milli Íslendinga annars vegar og Breta og Hollendinga hins vegar eru hin pólitísku rök - fyrir utan það að dómstólaleiðin er ekki fær leið. Viðsemjendur okkar, önnur ESB ríki og Noregur hafa ekki fallist á að fara dómstólaleiðina og þá er sú leið ekki fær þar sem báðir aðilar verða vera sammála um þá leið til þess að hún sé fær.

Ákvörðun um að hafna samkomulaginu er ávísun á einangrun Íslands frá alþjóðasamfélaginu. Einangrun landsins mun ekki stuðla að skjótari endurreisn. Fyrirgreiðsla AGS er háð samkomulagi um ICE SAVE skuldbindingarnar og lánafyrirgreiðsla annarra landa er háð samstarfinu við AGS. Þannig að það er margt sem hangir á spýtunni vegna þessarar ákvörðunar og þingmenn geta ekki leyft sér þann munað að horfa á samningana við Breta og Hollendingar sem einangrað fyrirbæri vegna þess að samningarnir eru forsenda áframhaldandi samstarfs við alþjóðasamfélagið.

Þetta vita þingmenn og þess vegna talar núna nánast enginn um að ekki eigi að semja við Hollendinga og Breta heldur er deilt um það hvort samningurinn sé ásættanlegur. Þetta er mikilvægt að hafa í huga - það er nánast algjör pólitísk samstaða á Alþingi um að fara samningaleiðina. Hvort okkur bjóðast betri samningar ef Alþingi fellir samninginn sem núna er verið að ræða á þingi er erfitt að fullyrða um. Allt eins má segja að okkur byðist lakari samningur en þessi. Þess vegna er talsvert hættuspil að fella samninginn og reyna að semja upp á nýtt. Hugsanlegt er að ná mætti betri samningum í annarri lotu en allt eins má færa rök fyrir því að okkur byðist verri samningur. Mikilvægast er að eyða óvissu sem allra fyrst enda er það grundvallarforsenda fyrir áframhaldandi endurreisnarstarfi. Þannig geta stjórnvöld og atvinnulíf líka farið að einbeita sér að öðrum þáttum endurreisnarinnar án þess að eiga það á hættu að litið verði á Íslendinga og íslensk fyrirtæki eins og manninn, sem alltaf er tilbúinn að leita leiða til þess að komast hjá því að borga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Góð skilgreining á því ferli sem er orsök þess hvernig komið er hjá okkur. Það er grátbroslegt að hlusta í "silfurskeiðadrengina" Sigmund Davíð og Bjarna Ben þegar þeir koma í fjölmiðla og láta stór orð falla um  ICE SAVE samninginn. Flokkarnir sem þeir stýra nú, hafa í áratugi skarað elda að sínum kökum, hvor á sinn hátt.

Nú er farið að kólna í kolunum og þeir telja sig geta blásið í glæðurnar með innihaldslitlum försum og stórum orðum. Þegar þjóðin er hætt að taka mark á Davíð Oddssyni, er verulega farið að fjara undan.

Við getum ekki annað en samþykkt þann samning sem gerður hefur verið. Hann er forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu á jafnamannasamfélagi úr fallinni frjálshyggjuspilaborg.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 9.7.2009 kl. 02:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband