Leita í fréttum mbl.is

Góður borgarafundur í Nýheimum

Í gærkvöldi var haldinn borgarafundur í Nýheimum þar sem bæjarbúar fengu kynningu á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár. Bæjarstjóri, Hjalti Þór Vignisson veitti bæjarbúum góða innsýn inn í það hver helstu markmið okkar verða á næsta ári í fjárhagsáætluninni. Gaman var að sjá hversu margir sáu sér fært að mæta á fundinn. Það sýnir vel að fólki er umhugað um framtíð sveitarfélagsins.

Að lokinni kynningu tók Stefán Ólafsson, framkvæmdastjóri fræðslu - og félagssviðs við fundarstjórninni og bæjarráð sat ásamt bæjarstjóra fyrir svörum um öll þau mál sem fundarmenn vildu ræða sérstaklega. Rétt er að geta þess að í bæjarráði sitja; Reynir Arnarson fyrir Framsóknarflokkinn, Björn Ingi Jónsson fyrir Sjálfstæðisflokkinn og svo ég sjálfur fyrir Samfylkinguna.

Líflegar umræður sköpuðust um hin ýmsu mál á fundinum og voru umræðurnar mjög málefnalegar. Greinilegt var þó að fundarmenn höfðu mikinn áhuga á þeim miklu framkvæmdum sem framundan eru á næsta ári er varða uppbyggingu íþróttamannavirkja. Þar er um að ræða nýja sundlaug, aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir auk uppbyggingar nýs grasvallar á Sindravöllum. Fundarmenn og bæjarbúar almennt hafa mikinn áhuga á þessum málum og hafa mikinn metnað fyrir hönd sveitarfélagsins.

Á fundinum kom fram að allar líkur eru á því að ekki verði hægt að synda í nýrri sundlaug á Unglingalandsmóti UMFÍ sem haldið verður á Hornafirði um næstu verslunarmannahelgi. Sig á jarðvegspúða hefur reynst okkur erfitt og skv. nýjustu mælingum sígur púðinn enn. Ég held að allir harmi það að ekki verður hægt að vígja mannvirkið á landsmótinu í sumar.

Mér finnst þó aðalatriðið vera það að við erum að byggja glæsilegt sundlaugarmannvirki til framtíðar fyrir íbúa sveitarfélagsins. Ekki má heldur gleyma því að ný sundlaug hækkar þjónustustigið mjög mikið hér í sveitarfélaginu og kemur til með að nýtast ferðaþjónustunni. Mikilvægast er að við horfum til framtíðar og byggjum mannvirki sem við getum verið stolt af og þjónar öllum almenningi í sveitarfélaginu án þess að sliga rekstur þess.

Lóðarmál voru líka mikið til umræðu. Kom fram í máli bæjarráðsmanna að þau mál verða skoðuð sérstaklega á þessu kjörtímabili. Menn eru sammála um að tími sé til kominn að enduskoða lóðaframboð gaumgæfilega. Fram hefur komið að e.t.v. sé skortur á góðum einbýlishúsalóðum. Það er er eitthvað sem verður að skoða.

Auðvitað voru mörg önnur mál rædd á fundinum eins og samgöngumál, þ.e. hringvegur um Hornafjarðarfljót og göng undir Lónsheiði og eflaust hefði verið hægt að halda áfram með fundinn fram á rauða nótt. En Stefán sleit fundi laust fyrir hálf ellefu og fólk gekk glatt út í nóttina.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband