Leita í fréttum mbl.is

Hugmyndafræðileg endurnýjun nauðsynleg

Eftirfarandi pistill eftir mig birtist á vefmiðlum í dag:

Árið 1978 var merkilegt ár fyrir margra hluta sakir í sögu landsins eins og fram kom í greinarkorni Helga Ólafssonar, formanns kjördæmissamtaka ungra Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, sem birtist á vef Eyjafrétta og á eyjar.net 9. apríl sl. Margt er líkt með því herrans ári og yfirstandandi ári. Þetta eru bæði ár mikilla breytinga. Þess vegna saknaði ég þess í upptalningu Helga á markverðum atburðum frá 1978 að hann skyldi ekki geta þess að það ár unnu vinstri flokkarnir mikinn kosningasigur. Eftir þann mikla kosningasigur vinstri flokkanna settist Jóhanna Sigurðardóttir á þing í fyrsta sinn og þar situr hún enn eins og Helgi bendir réttilega á. Árið 1978 naut Jóhanna Sigurðardóttir trausts fólksins í landinu og það gerir hún enn - og það hefur aukist frekar en hitt á þessum rúmu þrjátíu árum.  

Fólkið brást en ekki stefnan - hálmstrá Íhaldsins

Það er misskilningur Sjálfstæðismanna, að búsáhaldabyltingin svokallaða hafi eingöngu snúist um að kalla nýtt fólk til starfa. Sú bylting snerist ekki síður um kröfuna um ný og breytt vinnubrögð, nýja hugmyndafræði, opið og skilvirkt stjórnkerfi og uppgjör við frjálshyggju og græðgisvæðingu síðustu ára undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Jóhanna Sigurðardóttir hefur ekki brugðist trausti eða trúnaði fólksins í landinu og því treystir það henni til að leiða endurreisnina - hvað sem langri setu á Alþingi líður. Það mætti jafnvel ganga svo langt að segja að það sé beinlínis vegna verka hennar og framgöngu á Alþingi á þessum rúmu þrjátíu árum að fólk treystir henni til áframhaldandi góðra verka.

Ástæðan fyrir því að Sjálfstæðismenn, eins og Helgi, skilja þetta ekki er m.a. sú að Sjálfstæðisflokkurinn komst að þeirri gagnmerku niðurstöðu á landsfundi sínum að fólkið hafi brugðist en ekki flokkurinn eða stefnan. Þeirra niðurstaða var s.s. sú að Geir Hilmar Haarde, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Davíð Oddsson, Björn Bjarnason, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Árni Johnsen og fleira gott Sjálfstæðisfólk auk samstarfsmanna úr öðrum flokkum beri persónulega ábyrgð á hruninu. Almenningur virðist hins vegar ekki alveg ætla að fallast á þessa söguskýringu Íhaldsins enda sér hvert mannsbarn að sú efnahagslega kollsteypa, sem skekið hefur landið, verður ekki skrifuð á nokkra einstaklinga - heldur er hér um að ræða hugmyndafræðilegt gjaldþrot frjálshyggjunnar - hins hugmyndafræðilega grunns Sjálfstæðisflokksins.

Afsögn upphaf endurskipulagningar

Persónulegar ábyrgðir virðast reyndar vera leiðarstefið í hrunadansi Íhaldsins þessa dagana enda tók fyrrverandi formaður flokksins, Geir H. Haarde, einn á sig alla ábyrgð vegna tugmilljóna styrkveitinga frá FL Group og Landsbankanum korteri fyrir gildistöku laga sem bönnuðu slíka styrki til stjórnmálaflokka. Aðstoðarmaður Geirs á þeim tíma - og náinn samstarfsmaður hans í pólitík um árabil - var Ragnheiður Elín Árnadóttir, núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum en hún hefur tekið við sæti þeirra Kragamanna af Árna M. Mathiesen á lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Að fá nýjan fallhlífarframbjóðanda úr Kraganum er kannski annað dæmi um „endurnýjun" á lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi - hver veit?

Hinn mikli áhugi Helga á oddvita Samylkingarinnar í Suðurkjördæmi, Björgvini G. Sigurðssyni er athyglisverður. Það er ágætt og eðlilegt að Helgi skuli hafa áhuga á honum vegna þess að með afsögn sinni og brottvikningu stjórnar Fjármálaeftirlitsins hóf Björgvin G. Sigurðsson nauðsynlega endurskipulagningu á íslensku fjármálaumhverfi. Þannig skapaðist grundvöllur fyrir endurreisn trúverðugleika íslensks fjármálakerfis. Það er í raun þakkarvert að því sé til haga haldið af mönnum eins og Helga Ólafssyni.

Nýir leikmenn - sama leikkerfið

Af því að Helga er umhugað um endurnýjun er vert að velta því fyrir sér að hann þarf að leita niður í 4. sætið á lista þeirra Sjálfstæðismanna til þess að finna dæmi um verðuga endurnýjun á framboðslistanum - og til þess að finna glæsilegan fulltrúa Eyjamanna. Augljóst er af hverju Helgi hoppar yfir fyrstu tvö sætin á listanum - a.m.k. hvað varðar viðmiðin um nauðsyn endurnýjunar í íslenskri pólítík. En meginþunginn í málflutningi Sjálfstæðismanna virðist vera sá að nóg sé að benda á ný andlit, nýtt fólk - bara eitthvað nýtt.

            Hvað sem allri endurnýjun líður hjá Sjálfstæðisflokknum þá hefur engin hugmyndafræðileg endurnýjun átt sér stað hjá flokknum. Flokkurinn telur að nóg sé að skipta nokkrum gömlum leikmönnum út af sem ekki hafa staðið sig - að þeirra eigin mati - og setja nýja og „ferska" leikmenn á völlinn í þeirra stað. Þeir hyggjast þó áfram byggja á sama leikkerfinu - og reyndar að stórum hluta á sömu leikmönnunum sbr. fyrstu tvö sætin í Suðurkjördæmi. Leikkerfið byggir á sömu hugmyndafræði og Sjálfstæðisflokkurinn hefur fylgt á valdastóli sínum síðastliðin átján ár - hugmyndafræði frjálshyggjunnar, sem beðið hefur algjört skipbrot - ekki bara á Íslandi heldur á heimsvísu. Hugmyndir Sjálfstæðismanna um uppgjör og endurnýjun vegna efnahagshruns af völdum stefnu flokksins til átján ára birtast því með nýju andliti í 4. sæti á lista þeirra í Suðurkjördæmi. Þrátt fyrir þessa „miklu endurnýjun" Íhaldsins er margt sem bendir til að vinstra vorið frá 1978 muni endurtaka sig 25. apríl nk.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Skipar 7. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband