Leita í fréttum mbl.is

Réttmæt krafa um kosningar

Krafa mótmælenda við Alþingishúsið í gær um kosningar er hvorki ósanngjörn né óréttmæt. Krafan er studd sterkum rökum. Kollsteypa hefur orðið í efnahagsmálum þjóðarinnar og landið er sérstakt rannsóknarefni fyrir félagsvísindamenn þar sem Ísland er fyrsta nútímavædda hagkerfi heimsins, sem allt í einu er án virks bankakerfis.

Þetta gerðist á vakt núverandi stjórnvalda og stofnana þeirra. Enn sem komið er hefur ríkisstjórnin ekki svarað kalli fólks um breytingar á lykilstofnunum - Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Auk þess situr ríkisstjórnin óbreytt en sterkar raddir hafa verið uppi um að þar hafi þurft að gera breytingar í kjölfar bankahrunsins. Ekkert af þessu hefur hins vegar gerst og þess vegna magnast reiðin meðal landsmanna og vantraustið í þeirra garð er orðið algjört.  

Tilveruréttur ríkisstjórnarinnar er nú mjög dreginn í efa. Enda tók hún til valda árið 2007 við allt aðrar aðstæður en nú eru uppi. Efnahagshrun var ekki hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Það er í raun ofureðlilegt að almenningur skuli ekki treysta þeim, sem sátu við stjórnvölinn þegar hrunið átti sér stað, til áframahaldandi verka.

Alþingi sækir umboð sitt beint til fólksins og ríkisstjórnin sækir umboð sitt til Alþingis. Það er því hlutverk Alþingis að veita kjósendum tækifæri til lýðræðislegrar þátttöku. Þannig yrði líka komið til móts við þá miklu ólgu sem er í samfélaginu.

Það er verkefni stjórnvalda - ríkisstjórnar og Alþingis - endurreisa traust og trúverðugleika stjórnvalda. Á þessari stundu er erfitt að sjá aðra leið til þess en að boða til kosninga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband