Leita í fréttum mbl.is

Stóru málin

Eitt af stóru málunum sem bæjarfulltrúar ræða í bæjarstjórn í sveitarfélagi eins og Hornafirði eru atvinnumálin í víðu samhengi. Menn eru alltaf að leita leiða til þess að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu og treysta stoðir þess. Einsleitt atvinnulíf er þröskuldur í þróun og viðgangi byggðarlaga.

Á yfirstandandi kjörtímabili höfum við sett mörg verkefni í gang sem miða að því að efla atvinnulífið á staðnum. Það má segja að vinna bæjarstjórnar felist fyrst og fremst í því að reyna að greina þau tækifæri sem eru til staðar á svæðinu til atvinnuuppbyggingar. Markmiðið er ekki að sveitarfélagið sjálft ætli út í stórfelldan atvinnurekstur en við viljum leggja okkar að mörkum til þess að greiða fyrir nauðsynlegri uppbyggingu.

Gagnaver og vatnsútflutningur

Á þessu kjörtímabili höfum við t.d. farið fram á það við Nýsköpunarmiðstöð að hún vinni faglega úttekt á því hverjir möguleikarnir á svæðinu eru til vatnsútflutnings. Skýrlsa byggð á þeirri vinnu verður opinber á næstu dögum. Skýrslan verður tekin til umfjöllunar í bæjarráði innan skamms og helstu niðurstöður hennar kynntar í framhaldi af því.

Við höfum einnig leitað eftir samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð til þess að vinna sambærilega úttekt á möguleikum okkar til þess að hér verði starfsemi á borð við gagnaver. Bæjarstjóri hefur einnig hitt fulltrúa á vegum Fjárfestingarstofu til þess að fara yfir þessi mál með þeim. Á þeim fundi kom fram að fulltrúar Fjárfestingarstofunnar fögnuðu úttekt bæjarfélagsins og bent á að margvísleg tækifæri ættu eftir að skapast í þessum geira í framtíðinni og því væri mikilvægt fyrir okkur að vera búin að vinna okkar grunnvinnu.

Í vinnu, sem nú er að hefjast á endurskoðun aðalskipulags, er mikilvægt að gert verði ráð fyrir hugsanlegri uppbyggingu í tengslum við vatnsútflutning og gagnaver. Huga þarf vel að staðsetningu slíkrar starfsemi í samfélaginu.

Mótvægisaðgerðir

Þegar ríkisstjórnin fór af stað með mótvægisaðgerðir sínar vegna niðurskurðar á þorskkvóta hafði það ótvíræð áhrif að sveitarfélagið hafði unnið sína heimavinnu og kom fram með mótaðar og mjög metnaðarfullar tillögur. Af þeim sökum var Háskólasetrið stóreflt og Nýsköpunarmiðstöð er nú með útibú í Nýheimum. Þessar stofnanir styrkja mjög vel við atvinnulífið á staðnum. Háskólasetrið vinnur mikið að málefnum tengdum ferðaþjónustu og uppbyggingu þjóðgarða og Nýsköpunarmiðstöð styður við atvinnulífið í ýmsu tilliti, m.a. með því að vinna að úttektum fyrir sveitarfélagið um hugsanlega atvinnuuppbyggingu.

Ferðaþjónustan

Einn helsti vaxtabroddurinn í atvinnulífinu hér er í ferðaþjónustunni. Sífellt fleiri eru farnir að stunda þennan atvinnurekstur á heilsárs grunni og fleiri fjölskyldur byggja orðið afkomu sína að stórum hluta á ferðaþjónustunni. Helsti þröskuldurinn í ferðaþjónustunni og það sem helst stendur vexti hennar fyrir þrifum er að hún er í raun ekki orðin heils árs atvinnugrein. Megnið af tekjunum myndast á þremur mánuðum yfir sumartímann. Brýnasta verkefnið í ferðaþjónustunni til lengri tíma hlýtur að vera að lengja ferðamannatímann. Markaðasátak iðnaðarráðuneytisins í samstarfi við aðila innan ferðaþjónustunnar undir forystu Ferðamálastofu er jákvætt skref í þá átt að efla ferðamannaiðnaðinn. Ætlunin er að verja 100 milljónum króna til þess að kynna Ísland sem áhugaverðan áfangastað að hausti og vetri. Iðnaðarráðherra og Ferðamálastofa virðast átta sig á mikilvægi þess að lengja ferðamannatímann og teygja hann lengra fram á veturinn.

Ekki má heldur gleyma hinum svokölluðu skapandi atvinnugreinum. En í því sambandi hefur bæjarstjórn fundið fyrir miklum áhuga hjá ýmsum á uppbyggingu í tengslum við verkefnið Hafnarvík-Heppa. Þar er hugmyndin að byggja upp gömlu bæjarmyndina á Höfn við höfnina. Um er að ræða stórt og spennandi verkefni. Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því þessi uppbygging myndi styðja mjög vel við bakið á ferðaþjónustunni í sveitarfélaginu. Mjög fjölmennur fundur var haldinn um þessar hugmyndir í pakkhúsinu 29. apríl síðastliðinn.

Ég sagði á síðasta bæjarstjórnarfundi, þar sem ágæt umræða skapaðist um þennan málaflokk, að mikilvægt væri að bæjarfulltrúar gleymdu sér ekki amstri hversdagsins - eins og stjórnunarþætti leik - og grunnskóla - og væru vakandi í stóru málunum, þ.e. hvernig við getum eflt sveitarfélagið til framtíðar. Það er auðvelt að gleyma sér í pólitískum sandkassaleik þannig að stóru málin, sem okkur ber skylda til að huga að, gleymist. Það er okkar að passa að slíkt gerist ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband