Leita í fréttum mbl.is

Skólamálin

Oft er það þannig að hlutirnir eru fljótir að breytast í bæjarmálunum. Skammt er nú liðið síðan við samþykktum nýja skólastefnu fyrir sveitarfélagið þar sem ákveðið var að sameina Nesja, - Hafnar - og Heppuskóla undir einn hatt. Skömmu síðar var samþykkt í bæjarráði að selja til einkaaðila skólahúsnæði grunnskólans sem staðsett er í Nesjum.

Með sölunni var bæjarráð sammála um að búið væri að marka þá stefnu að skólahald Grunnskóla Hornafjarðar í Nesjum myndi leggjast af innan ákveðins tíma. Þegar þessi niðurstaða bæjarráðs liggur fyrir vaknar sú spurning, hvort skynsamlegt sé að bíða lengi eftir að ákvörðunin verði að veruleika. Fyrir liggur að nemendum grunnskólans hefur fækkað um rúmlega hundrað frá árinu 1999 og akstur nemenda úr þéttbýli í dreifbýli lýtur öðrum lögmálum en akstur nemenda úr dreifbýli í þéttbýli þar sem sá akstur er ekki niðurgreiddur af jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ein meginröksemdin fyrir því að stíga ekki þetta skref til fulls hefur m.a. verið sú að nýta húsnæði sveitarfélagsins sem best og að hingað til hafi ekki værið að koma öllum nemendum Grunnskóla Hornafjarðar fyrir í skólahúsnæðinu á Höfn.

Frá því ég ræddi fyrst um þann möguleika að flýta flutningi skólahalds úr Nesjum út á Höfn í ljósi þess að búið væri að sameina alla skólana undir einn hatt og selja húsnæði Nesjaskóla hefur komist töluverður skriður á umræðuna. Málið hefur fengið töluverða umfjöllun og skólastjórn Grunnskólans hefur sýnt fram á að miðað við húsnæðisþörf skólans geta þessir flutningar farið fram næsta haust. Málið fékk einnig töluverða umræðu í bæjarstjórn og ég gat ekki betur heyrt en að bæjarfulltrúar væru mér sammála í þessu máli.

Ákveðið hefur verið, í samræmi við tillögu skólanefndar, að stofna starshóp til þess að fara betur yfir málið og koma með tillögur um næstu skref. Í honum eiga sæti einn fulltrúi frá hverju framboðí í skólanefnd auk fulltrúa starfsmanna, foreldra og skólastjórnarinnar. Í raun má því segja að ákvörðun um flutningana liggi fyrir nú þegar, en eftir eigi að taka ákvörðun um hvenær flutningarnir fari fram.

Ég hef lýst þeirri skoðun minni, bæði hér á þessum vettvangi og í ræðustól bæjarstjórnar, að skynsamlegast sé að hraða flutningunum eins og kostur er, úr því að búið er móta stefnuna til framtíðar. Ekki sé skynsamlegt að reka lengi skólaeiningu sem allir eru meðvitaðir um að á að loka innan tíðar. Ef starfshópurinn verður mér sammála í þessu mikilvæga máli þá verður það verkefni hans að halda utan um þessar breytingar á skólamálum sveitarfélagsins í góðri samvinnu við skóla - og foreldrasamfélagið.

Þegar upp verður staðið eftir þetta kjörtímabil, hvernig sem þessi mál öll fara, þá er ljóst að töluvert umrót og breytingar hafa átt sér stað í skólamálum í sveitarfélaginu.

Annar málaflokkur sem hefur gengið í gegnum töluverðar breytingar það sem af er kjörtímabilinu eru málefni æskulýðs - og tómstundamála. Þar vísa ég ekki síst í skipulagsbreytingar varðandi félagsmiðstöðina Þrykkjuna. Þær breytngar voru samþykktar á grundvelli tillagna stýrihóps um félagslíf grunnskólanema á Hornafirði. Breytingar voru gerðar á nefndakerfi sveitarfélagsins þegar æskulýðs - og tómstundaráð annars vegar og menningarmálanefnd hins vegar voru sameinaðar í menningar - og tómstundarnefnd. Auk þess var samþykkt að auglýsa eftir sérstökum tómstundafulltrúa með aðsetur í félagsmiðstöðinni, sem er breyting frá fyrri skipan mála. Eitt af því sem stýrihópurinn lagði til í sinni skýrslu var að taka húsnæði félagsmiðstöðvarinnar til endurskoðunar þótt núverandi húsnæði hefði þjónað tilgangi sínum ágætlega í gegnum árin þá væri ljóst að það væri líka að einhverju leyti hamlandi fyrir starfsemina.

Það er verðugt en að sama skapi alls ekki einfalt verkefni fyrir sveitarfélagið að kanna hvort hægt sé að bæta húsakost félagsmiðstöðvarinnar með skynsamlegum hætti þannig að hægt sé að efla tómstundastarf barna og unglinga enn frekar í sveitarfélaginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband