Leita í fréttum mbl.is

Menntamálaráðherra og ESB

Að einhverju leyti má segja að tekist hafi að snúa Íhaldinu til ESB ef marka má þau skynsamlegu orð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins þess efnis að hún teldi að hefja ætti umræður um Evrópusambandsaðild af fullum krafti. Þannig væri að hægt að leggja aðildina í dóm kjósenda á næsta kjörtímabili. Hún er þar með að segja að við ætlum að hefja undirbúning að aðildarviðræðunum, fara yfir kosti og galla á aðild að Evrópusambandinu og leggja málið síðan í dóm almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta eru sannarlega orð í tíma töluð innan úr innsta valdakjarna Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður Katrín er að reyna að vekja menn þar innanborðs til vitundar um að flokkurinn geti ekki forðast þessa umræðu öllu lengur þó skiptar skoðanir kunni að vera um ESB innan Sjálfstæðisflokksins. Eftir að búið er að fara í gegnum upplýsta og málefnalega umræðu um kosti og galla aðildarinnar þá treystir hún þjóðinni til þess að taka endanlega ákvörðun um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Undir þessi sjónarmið er óhætt að taka.

En Samfylkingin hefur auðvitað talað fyrir þessari leið í fjölda ára þannig að hér er ekki um nein sérstök tímamót að ræða í íslenskri pólitík. Hins vegar er það ánægjuefni að varaformaður Íhaldsins hefur tekið það upp á sína arma að reyna að leiða flokkinn sinn út úr ógöngum hans í Evrópumálunum.

Það er hins vegar full seint í rassinn gripið að segja að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að taka forystu í umræðum um ESB. Íhaldið hefur of lengi forðast þessa umræðu til þess að unnt sé að taka þessi orð mjög hátíðlega.  Engu að síður er hægt að gleðjast yfir þeirri afstöðubreytingu sem virðist vera að eiga sér stað innan Sjálfstæðisflokksins hvað varðar aðildarviðræðurnar sjálfar og það eru akveðin tímamót.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband