Leita í fréttum mbl.is

Enn af mótvægisaðgerðum

Ég eru búinn að nota frítímann eftir kennslu í dag til þess að fara yfir þær mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í gær.

Eftir því sem ég skoða tillögurnar betur sýnist mér að við hér á Hornafirði megum að mörgu leyti vel við una. Það er greinilegt að okkar sjónarmið hafa verið uppi á borðinu í þessari vinnu ríkisstjórnarinnar. Enda eru þær tillögur sem kynntar hafa verið fyrir þetta svæði mjög í takti við þær tillögur sem sveitarstjórnarmenn hér hafa talað fyrir.

Greinilegt er að iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson ætar sér stóra hluti með Nýsköpunarmiðstöðina sem hann opnaði á dögunum á Vestfjörðum því tvö stöðugildi á vegum hennar verða staðsett á Hornafirði og í Vestmannaeyjum samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar.

Haft er eftir Össuri á forsíðu Moggans í dag að hér sé um að ræða öflugustu mótvægisaðgerðir sem nokkur ríkisstjórn hefur gripið til vegna erfiðleika í atvinnulífi landsmanna.

Ég tek undir það með honum að með þessum aðgerðum er verið að styrkja innviði samfélaganna sem verða fyrir barðinu á kvótaskerðingunni. Skammtímalausnir duga ekki til þess að byggja samfélögin upp til framtíðar. Auðvitað er það þannig að ekki er komið nægjanlega mikið til móts við fyrirtækin sem lenda í vandræðum vegna kvótaskerðingarinnar og þeirra einstaklinga sem koma til með að missa atvinnuna í kjölfar kvótaskerðingarinnar líkt og margir hafa bent á.

Það er hins vegar morgunljóst í mínum huga að það er fyrst og fremst hlutverk ríkisvaldsins að styrkja innviðina og skapa hvetjandi aðstæður fyrir fólk til þess að koma hlutum á hreyfingu í sínu samfélagi.

Ég held líka að það væri tilvalið verkefni fyrir ríkisstjórnina og Samband íslenskra sveitarfélaga í kjölfarið á þessari ákvörðun að setjast rækilega yfir tekju - og verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það markmiði að styrkja sveitarfélögin enn frekar og bæta þjónustu við íbúa sveitarfélaganna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband