Leita í fréttum mbl.is

Þjónustusamningur, skýrsla Ríkisendurskoðunar o.fl.

Af því að þjónustusamningurinn um rekstur heilbrigðis - og öldrunarmála hefur verið til umföllunar að undanförnu eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd samningsins kom út á föstudaginn þá birti ég hér langhund sem ég flutti um málefni Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands og þjónustusamningsins á síðasta bæjarstjórnarfundi. Hafa ber í huga að ræðan er flutt degi áður en endanleg skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út. En hér er ræðan:

Eins og allir eflaust vita nú hafa samningaviðræður við Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytið um áframhaldandi þjónustusamningu um rekstur heilbrigðis - og öldrunarþjónustu í sveitarfélaginu staðið yfir í tæpt ár. Þetta er vissulega orðinn langur og strangur tími og síðasti þjónustusamningur rann út um síðustu áramót. Auðvitað er það bagalegt fyrir okkur sem rekum stofnunina og fólkið sem starfar þar að ekki skuli vera búið að ganga frá nýjum samningi. Slík óvissa er aldrei góð.

Eins og flestir vita og alveg örugglega allir hér inni vita þá var gerð tilraun til þess að ljúka samningsgerðinni í fyrri hluta maí á þessu ári eða korteri fyrir kosningar eins og einhver sagði. Það tókst þó ekki á þeim tímapunkti vegna þess að erfitt reyndist fyrir fjármálaráðuneytið til þess að ljúka sinni vinnu í tengslum við samninginn á þeim tíma af ýmsum ástæðum.

Síðan þetta gerðist allt saman hefur ýmsu skolað á land sem breytir að einhverju leyti þeim forsendum sem við vorum að vinna út frá á þeim tímapunkti. Þar má sem dæmi nefna úttekt Ríkisendurskoðunar á framkvæmd síðasta þjónustusamnings. Forsaga málsins er sú að á fundi sínum 16. janúar síðastliðinn fól bæjarráð bæjarstjóra að fara þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún geri stjórnsýslu - og fjárhagsúttekt á HSSA. Heilbrigðis - og öldrunarráð fór þess einnig á leit að starfsmenn sveitarfélagsins óskuðu eftir stjórnsýsluúttekt hjá Ríkisendurskoðun á fundi sínum 9. janúar. Þessari skýrslugerð er í þann mund að ljúka. Bæjarfulltrúar hafa nú þegar fengið í hendurnar drög að skýrslunni og hafa þau verið rædd sérstaklega á vinnufundi bæjarstjórnar. Eftir þann fund samþykkti svo bæjarráð athugasemdir bæjarstjóra við drögin að skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Nú er s.s. ákveðin biðstaða í málinu. Ákveðið hefur verið að bíða eftir endanlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar og skoða svo samningsdrögin eins og þau liggja fyrir með hliðsjón af þeim ábendingum sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar. En það hefur bæði verið rætt við heilbrigðis – og fjármálaráðherra og það er mitt mat að skýr vilji sé til þess að ljúka þessu máli hratt og örugglega að því loknu þannig að við stöndum uppi með metnaðarfullan samning að þessu loknu. Mig langar einnig til þess að nefna hér eitt mál í viðbót varðandi fundargerð heilbrigðis – og öldrunarráðs en það er 6. liður þeirrar fundargerðar þar sem rætt var um læknamál í sveitarfélaginu. Í þjónustukönnun sem við fengum til þess að gera fyrir okkur í mars síðastliðnum kemur fram töluverð óánægja með læknisþjónustuna í sveitarfélaginu. Rúmlega 60% aðspurðra eru óánægð með læknaþjónustu í sveitarfélaginu. Þetta er auðvitað áhyggjuefni og ber að taka alvarlega. Heilbrigðis – og öldrunarráð ræddi læknamálin á síðasta fundi sínum og reyndi að greina vandann. Ef ég ætti að reyna að túlka sameiginlega niðurstöðu fundarmanna þá myndi ég segja að það hafi verið sameiginleg niðurstaða okkar ástæða óánægjunnar hafi ekki verið sú að aðgengi að læknum sé lélegt heldur sú að stöðugleikann vanti í þjónustuna. Heilbrigðis – og öldrunarráð lítur þetta mál mjög alvarlegum augum og það er ljóst að við verðum að reyna að bregðast við enda kalla íbúar sveitarfélagsins á aðgerðir. Af þeim sökum fór ráðið fram á það við framkvæmdastjóra HSSA að koma með tillögur að leiðum til úrbóta á næsta fundi ráðsins. Auðvitað gerir ráðið sér fulla grein fyrir því að ekki eru til neinar patent lausnir á vandamálinu en okkur ber skylda til þess að hlusta á raddir íbúanna og í þessu máli tala þeir mjög skýru máli í könnuninni.

En vandamálið er í raun margþætt. Læknar eru ekki eina háskólamenntaða fólkið sem vantar til starfa í sveitarfélaginu. Við auglýstum t.a.m. eftir tæknimenntuðum manni til þess að stýra tækni – og umhverfissviðinu hjá sveitarfélaginu. Skemmst er frá því að segja að okkur barst ekki ein einasta umsókn frá manneskju með slíka menntun. Einnig er nokkuð stöðugur skortur á menntuðum kennurum í leik – og grunnskólunum. Þannig að það eru ekki bara læknastöðurnar sem erfitt er að manna heldur flæðir þetta ástand yfir ýmsar aðrar atvinnugreinar.

(Flutt á bæjarstjórnarfundi 06. september 2007) 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband