Leita í fréttum mbl.is

Skipað í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs

Það var mikið gleðiefni að sjá frétt þess efnis að búið væri að skipa stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs. Ráðgert er að þessi stærsti þjóðgarður Evrópu verði formlega stofnaður snemma á næsta ári. Nokkuð var tekist á um stjórnskipan þjóðgarðsins þegar lögin um hann voru samþykkt á Alþingi. Sérstaklega þótti mörgum sem áhrif heimamanna í yfirstjórn þjóðgarðsins væru helst til mikil.

Í stjórninni sitja sjö fulltrúar. Hún verður m.a. skipuð fjórum formönnum svæðisráða. Fyrir okkar svæði situr í stjórninni Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri og varamaður hans er Björn Ingi Jónsson, bæjarfulltrúi. Umhverfisráðherra hefur skipaða Önnu Kristínu Ólafsdóttur, aðstoðarmann sinn formann stjórnarinnar. Mér þykir þetta sýna að ráðherra ætlar að vera virkur þátttandi í uppbyggingu þjóðgarðsins og fylgjast vel með gangi mála. Enda er hér um gríðarlega stórt verkefni á sviði umhverfisverndar að ræða.

Í ljósi niðurskurðar á aflaheimildum á þorski hefur sveitarstjórn Hornafjarðar bent ríkisvaldinu á það að flýta allri uppbyggingu þjóðgarðsins. Við höfum einnig lagt það til að höfðuðstöðvar þjóðgarðsins verði staðsettar hér í sveitarfélaginu, nánar tiltekið á Höfn í nágrenni við Nýheima, frumkvöðla - og fræðasetur sveitarfélgsins. Höfuðstöðvar stærsta þjóðgarðs Evrópu ættu svo sannarlega vel heima í slíku umhverfi og myndi líka styðja vel við bakið á þeirri starfsemi sem fyrir er. Öflugri mótvægisaðgerð er vart hægt að hugsa sér fyrir sveitarfélag sem er á jaðri jökulrandar Vatnajökuls.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband