Leita í fréttum mbl.is

Brotthvarf Ingibjargar

Viðburðaríkri helgi er lokið. Prófkjöri Samfylkingarfólks í Suðurkjördæmi lauk á laugardaginn. Í hvíldinni á sunnudaginn helltust yfir mann fréttir um að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði ákveðið að draga sig hlé frá pólitíkinni af heilsufarsástæðum. Þessi ávkörðun Ingibjargar kom mörgum á óvart en ég held að hún hafi tekið hárrétta ákvörðun. Í svona veikindum á fólk að setja heilsuna og fjölskylduna í fyrsta sæti. Eflaust hefur hún líkað skynjað kallið um endurnýjun, bæði í þingmannahópnum og í forystusveitinni.

Um leið og ég þakka Ingibjörgu hennar forystu og leiðsögn á síðustu árum þá óska ég henni velfarnaðar og góðs bata.

Það er mín einlæga von að Jóhanna Sigurðardóttir taki að sér leiðtogahlutverkið í Samfylkingunni á landsfundinum í lok mars. Ég held að hún sé rétta manneskjan til þess. Hún nýtur trausts langt út fyrir raðir Samfylkingarinnar - og það með réttu. Hún er líka sá einstaklingur sem allt Samfylkingarfólk geti fylkt sér að baki á þessum erfiðu tímum þegar okkar bíður hreinsunarstarf eftir 18 ára valdasetu Íhaldsins og hruns frjálshyggjunnar. Engum er betur treystandi til þess að leiða það starf en Jóhönnu Sigurðardóttur.

Enn og aftur er óvissan það eina sem hægt að ganga að sem vísu í íslenskri pólitík.

En ég veit líka að jafnaðarmenn munu standa undir nafni á landsfundinum í lok mars - þétta raðirnar og halda áfram að eflast. Ábyrgð okkar er mikil vegna þess að jafnaðarstefnan - og öflugur flokkur sem framfylgir henni - er eina leiðin út úr þeim ógöngum, sem frjálshyggjan - leið Sjálfstæðisflokksins - hefur leitt okkur í. Þess vegna ríður á að við sameinumst að baki þeim einstaklingum sem valdir verða til forystu á landsfundinum og sækjum fram til sigurs í alþingiskosningunum 25. apríl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband