Leita í fréttum mbl.is

Mikilvægari en trúverðugleiki Seðlabankans?

Það er hreint ömurlegt að þurfa að horfa upp á það, sem bankastjórn Seðlabankans býður þjóðinni upp á þessa dagana. Í umsögn bankastjórnarinnar um frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um Seðlabankann leggja bankastjórarnir lykkju á leið sína til þess að fara í lögfræðilegar leikfimiæfingar um það hvort það sé í rauninni verið að leggja niður núverandi starf Davíðs Oddssonar - eins og það skipti máli.

E.t.v. hefur það farið framhjá bankastjórninni að sá fjármálastöðugleiki, sem bankinn átti að varðveita, er horfinn. Hann fauk út um gluggann á þeirra vakt. Í staðinn fyrir að gera það sem rétt er - að sjá sóma sinn í stíga úr sætum sínum og fara - bjóða þeir okkur upp á orðhengilshátt um hluti sem engu skipta.

Þetta er það valdakerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn vill verja með kjafti og klóm enda eru þingmenn þeirra blóðugir upp að öxlum við að berjast gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Leikritið sem þeir hafa sett á svið er sorglegt og náði hámarki þegar Geir H. Haarde vændi Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra um að fara með rangt mál varðandi umsagnir AGS um frumvarpið. Orð og athafnir þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessu máli eru með þeim hætti að maður gæti stundum freistast til þess að halda að þeir teldu fyrrverandi formann sinn mikilvægari en trúverðugleika Seðlabankans.

Málefni Seðlabankans eru brýn og það er algjörlega nauðsynlegt að endurheimta traust og trúverðugleika bankans innanlands og utan. Það verður ekki gert nema með því að tryggja bankanum nýja yfirstjórn. Þetta er eitt þeirra mála sem verður að útkljá sem allra fyrst svo við getum hent því aftur fyrir okkur og farið að huga að framtíðinni.

Davíð Oddsson er ekki mikilvægari en trúverðugleiki Seðlabankans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband