Leita í fréttum mbl.is

Bæjarstjórn og borgarafundur

Á bæjarstjórnarfundi síðastliðinn fimmtudag samþykkti bæjarstjórn reglur um úthlutun tómstundastyrkja til allra barna í sveitarfélaginu á aldrinum 6 - 18 ára. Upphæðin á styrknum verður 10.000 kr. - fyrir hvert barn. Reglurnar byggja á samþykkt bæjarstjórnar frá því ágúst þar sem ákveðið var að taka upp svokölluð tómstundakort fyrir börn á aldrinum 6 - 18 ára. Það var byggt á tillögum nefndar um mótun fjöskyldustefnu fyrir sveitarfélagið. Reglurnar og tómstundastyrkurinn taka gildi nú um áramótin.

Þetta er mál sem Samfylkingin lagði mikla áherslu á í sinni kosningabaráttu og því er það sérstakt ánægjuefni að sjá þetta verða að veruleika núna. Ég er sannfærður um að þetta á eftir að koma sér mjög vel fyrir börn og unglinga sem hafa áhuga hvers kyns tómstundum - sem og fjölskyldum þeirra.

Einnig var samþykkt ný og metnaðarfull starfsmannastefna fyrir sveitarfélagið en í henni er líka að finna jafnréttisáætlun sveitarfélagsins.

Eftir bæjarstjórnarfundinn var haldinn borgarafundur um aðalskipulagsbreytingu sem fyrirhuguð er í tengslum við nýtt vegstæði yfir Hornafjarðarfljót. Fundurinn var haldinn í samvinnu við Vegagerðina. Mætingin á fundinn var nokkuð góð og ágætar umræður sköpuðust á um málið. Að mörgu að hyggja í flóknu ferli eins og þessu.

Aðalskipulagsbreytingin felur í sér að ný leið yfir Hornafjörð verður sett inn á aðalskipulag í samræmi við niðurstöður Vegagerðarinnar og vilja bæjarstjórnar. Meiri samhljómur er nú með bæjarstjórn og Vegagerðinni um það hvaða leið beri að fara og þess vegna teljum við rétt að hefja skipulagsferlið núna.

Á laugardag var síðan haldinn vinnufundur í bæjarstjórn þar sem unnið var að gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Hún verður síðan lögð fyrir formlegan fund bæjarstjórnar til fyrri umræðu 18. des. nk. Sú vinna er auðvitað í meiri óvissu en oft áður vegna efnahagsástandsins en meginniðurstaða er hins vegar sú að staða sveitarfélagsins er nokkuð sterk en það verður að halda skynsamlega á spilunum til þess að hægt verði að sigla fleyinu í gegnum þetta efnahagsóveður sem yfir okkur gengur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband