Leita í fréttum mbl.is

Framboðin upplýsi um kostnað og styrki

Á síðasta bæjarráðsfundi lagði ég fram tillögu þess efnis að framboðin í sveitarstjórnarkosningum sl. vor upplýstu um kostnað og styrki vegna kosninganna. Vísaði ég m.a. til þess að birting upplýsinga um kostnað og styrki framboðanna vegna kosninganna væri eðlilegur liður í því að auka gagnsæi og efla lýðræðið í sveitarfélaginu. Upplýsingagjöf sem þessi auðveldar líka kjörnum fulltrúum ákvarðanatöku í bæjarstjórn þar sem þessar upplýsingar liggja fyrir frá upphafi og enginn ætti því að þurfa að velkjast í vafa um hvort ákvarðanir kjörinna fulltrúa snúist um nokkuð annað en almannahag. 

Kjósendur eiga eðlilega heimtingu á því að vita hvað framboðin eyddu miklum fjármunum - og hvernig - í sinni kosningabaráttu sem og hverjir studdu framboðin - hafi framboðin notið stuðnings frá utanaðakomandi aðilum á annað borð. Framlög sveitarfélagsins til framboðanna á síðasta kjörtímabili á grundvelli laga nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og upplýsingaskyldu þeirra ýta enn frekar undir þá kröfu að framboðin upplýsi um fjármál sín.

Tillagan var samþykkt samhljóða í bæjarráði og því ber að fagna. Það undirstrikar vilja kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn Hornafjarðar til þess að gagnsæi og opin og lýðræðisleg vinnubrögð verði grundvöllur starfa þeirra í umboði kjósenda. Traust er lykilatriði í stjórnmálum og í raun grundvöllur þess að lýðræðið virki yfir höfuð. Upplýsingagjöf í þessum anda til almennings frá stjórnmálasamtökum, sem starfa innan bæjarstjórnar, eru mikilvægur liður í því að viðhalda og efla traust fólks til þeirra.

Á þessum sama fundi lagði ég fram fyrirspurn í þremur liðum fyrir bæjarstjóra um nýtt fasteignamat í sveitarfélaginu. Fyrirspurninni var lögð fram til þess að fá fram upplýsingar um hvaða þýðingu hækkun á fasteignamati í sveitarfélaginu hefði fyrir tekjugrunn sveitarsjóðs og hvort hækkun tekna sveitarfélagsins vegna fasteignaskatts hefði áhrif á framlög jöfnunarsjóðs. Á grundvelli þessara upplýsinga væri síðan hægt að meta hvort tilefni væri til að lækka álagningu fasteignaskatts - enda verið í umræðunni að sveitarfélögin, þar sem fasteignamatið lækkar, muni hækka álagningu fasteignaskatts til að mæta tekjumissinum. Hægt er að lesa svör bæjarstjóra við fyrirspurninni hér.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband